Nýr ferðamálafulltrúi í New York
Sif Einarsdóttir Gústavsson hefur verið ráðin til Íslandsstofu sem ferðamálafulltrúi á viðskiptaskrifstofu Íslands í New York. Hefur hún störf í ársbyrjun 2011.
Með víðtæka reynslu
Sif hefur áður starfað fyrir Ísland á þessum vettvangi og einnig fyrir belgíska ferðamálaráðið í N.-Ameríku. Undanfarið hefur hún starfað fyrir ferðaskrifstofuna Iceland Travel, einnig með áherslu á Ameríkumarkað. Hún er að ljúka meistaragráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá HÍ og er með bandarískan ríkisborgararétt. “Mikil ánægja ríkir með ráðningu Sifjar og væntum við mikils af starfi hennar fyrir stofuna,” segir í frétt frá Íslandsstofu.
Margir hæfir umsækjendur
Tæplega 160 umsóknir bárust um starf ferðamálafulltrúans, þar af um 60 erlendis frá. Mikill hluti umsókna var frá fólki sem uppfyllti þau grunnskilyrði sem sett voru fram í auglýsingu starfsins og sumar þeirra voru frá verulega vænlegum umsækjendum. Tók því nokkurn tíma og vinnu að fara í gegnum þær til að þrengja hópinn.
Einar hættir eftir áratuga starf
Einar Gústavsson sinnt starfi umdæmisstjóra Ameríku af miklum dug til margra ára, en hann hættir nú fyrir aldurs sakir. Svo skemmtilega vill til að hann er faðir Sifjar. “Um leið og við bjóðum nýjan starfsmann velkominn, kveðjum við því með söknuði góðan og gegnan fulltrúa íslenskrar ferðaþjónustu sem starfað hefur af mikilli elju á Ameríkumarkaðnum áratugum saman,” segir í frétt Íslandsstofu.