Nýr forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála
Kristín Sóley Björnsdóttir hefur verið ráðin í tímabundið starf sem forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála (RMF).
Kristín Sóley er með meistaragráðu í menningarlandfræði með áherslu á ferðamál frá Viðskiptaháskólanum í Gautaborg. Hún hefur víðtæka reynslu í verkefna- og viðburðastjórnun og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á sviði menningarmála og ferðaþjónustu. Kristín Sóley starfaði sem sérfræðingur í menningarferðaþjónustu hjá RMF (þá Ferðamálasetur Íslands) fram á mitt ár 2005, m.a. við þróun og uppbyggingu Gásaverkefnisins í Eyjafirði, auk þess sem hún sinnti kennslu í ferðamálafræðum við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri. Frá árinu 2006 var hún framkvæmdastjóri Gásakaupstaðar ses og samhliða því sinnti hún starfi kynningarstjóra Minjasafnsins á Akureyri til ársins 2014 er hún hóf störf á Akureyrarstofu sem verkefnastjóri viðburða og menningarmála.
Fráfarandi forstöðumaður, dr. Edward H. Huijbens, hefur sinnt starfi forstöðumanns í hálfri stöðu samhliða kennslu og öðrum verkefnum við Háskólann á Akureyri frá árinu 2006. Edward mun áfram sinna rannsóknum í þágu ferðaþjónustu við RMF. Markmið ráðningar nýs forstöðumanns í fullt starf er að anna vaxandi umsvifum RMF, efla kynningu á hlutverki og starfsemi RMF, auka tengsl rannsóknamiðstöðvarinnar við greinina sjálfa og sinna verkefnum miðstöðvarinnar út á við. Ráðið er í starfið til eins árs, frá og með 1. janúar 2015.