Fara í efni

Nýr samningur um vestnorrænt ferðamálasamstarf

Vestnorden_logo
Vestnorden_logo

Nú í desember undirrituðu ráðherrar ferðamála í vestnorrænu löndunum þremur, Íslandi, Grænlandi og Færeyjum, nýtt samkomulag um samstarf landanna þriggja í ferðamálum. Tók nýr samningur gildi í upphafi nýbyrjaðs árs.

North Atlantic Tourist Association
Það voru þeir Sturla Böðvarsson Íslandi, Bjarni Djurholm Færeyjum og Siverth Heilmann Grænlandi sem gengu frá samkomulaginu. Vestnorræna ferðamálaráðið, sem starfað hefur í rúm 20 ár, svo og tvíhliða ferðamálasamningarnir SAMIK og FITUR, sem verið hafa í gildi frá 1995 við Grænland og Færeyjar, sameinast í hinu nýja samkomulagi. Heitir samstarfið nú Norh Atlantic Tourist Association, skammstafað NATA. Í samningnum kemur fram að markmið NATA sé að styrkja, samhæfa og tryggja ferðamálasamstarf landanna. Þá hefur NATA einnig það hlutverk að efla samstarf í markaðsmálum, auglýsa styrki eins og hingað til (SAMIK og FITUR) og einnig að tryggja áframhaldandi þróun ferðakaupstefnunnar Vestnorden Travel Mart. Nýtt nafn á að undirstrika breytinguna, hafa alþjóðlega skírskotun og haft var í huga að samstarfið geti hugsanlega náð til fleiri nágranna við N.-Atlantshafið í framtíðinni.

Níu manna stjórn stýrir þessu nýja verkefni, 3 frá hverju landi. Samgönguráðherra hefur nú skipað fulltrúa Íslands til næstu þriggja ára. Þeir eru Magnús Oddsson ferðamálastjóri, Áslaug Alfreðsdóttir, hótelstjóri á Ísafirði og Gunnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi á Akranesi.

Mynd: Merki Vestnorden ferðakaupstefnunnar.