Nýr vefur um íslenskan mat og matarmenningu
?Iceland Gourmetguide? er heitið á nýjum vef sem kynna á sælkeralandið Ísland erlendis, einkum á Bretlandsmarkaði. Um er að ræða gagnvirkan vef með upplýsingum um veitingastaði um allt land, kynningu á íslensku gæðahráefni og matarhefðum, ásamt umfjöllun um okkar helstu matreiðslumeistara.
Að vefnum standa Ferðamálastofa og Iceland Naturally verkefnið. Slóðin er www.icelandgourmetguide.com
Íslenskar uppskriftir
Vefinn prýðir meðal annars gagnvirkt kort af Íslandi og sérkort af höfuðborgarsvæðinu. Þannig er auðvelt að flakka um og kynna sér hvað er í boði á hverjum stað. Þá má heldur ekki gleyma þeim hluta vefsins sem geymir íslenskar uppskriftir, meðal annars af íslenskri kjötsúpu, bláberjaskyrtertu, kræklingasúpu, plokkfiski og pönnukökum, svo eitthvað sé nefnt.
Höfum margt að bjóða
Sigríður Gróa Þórarinsdóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálastofu á Bretlandsmarkaði, segir ferðafólk almennt hafa mikinn áhuga á matarhefðum í hverju landi. Mikilvægt sé að koma til skila því sem Ísland hefur að bjóða í þeim efnum með áherslu á ferskleika og gæði. ?Þótt Íslensk matarmenning standi á gömlum merg hefur íslenskt nútímaeldhús hefur svo miklu meira að bjóða gestum okkar en sviðahausa og kæstan hákarl. Íslenskir matreiðslumeistarar hafa einnig verið að skapa sér nafn erlendis og hafa þannig dregið athygli að landinu. Þá skemmir ekki fyrir að nú um stundir er einkar hagstætt fyrir erlenda gesti að fara út að borða hérlendis,? segir Sigríður Gróa.