Nýtt merki og útlit á kynningarefni Ferðamálastofu
Ferðamálastofa hefur tekið í notkun nýtt merki fyrir stofnunina og jafnframt endurnýjað útlit á öllu kynningarefni sínu. Það er Port hönnun sem á heiðurinn af hinu nýja útliti.
Gluggi sem má horfa í gegnum á land og náttúru
Unnið var út frá traustum grunni því nýtt merki og útlit byggir áfram á hinu sígilda merki Ferðamálastofu sem upphaflega var hannað á Auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar um 1975. „Hugmynd okkar er að nota merkið sem einskonar glugga sem má horfa í gegnum á land og náttúru. Nafninu er skipt í þrjár línur til að myndefnið fái notið sín. Til að skapa fjölbreytileika og spegla íslenska náttúru eru aðallega notaðar þrjár ljósmyndir eftir Ragnar Th. Sigurdsson sem tákna gróður, ís og vatn og jarðhita," segir Edda V. Sigurðardóttir, hönnunar- og framkvæmdastjóri Port hönnunar. www.porthonnun.is
Hér að neðan má síðan sjá nokkur dæmi um nýtt útlit.