Öflugu landkynningarstarfi í Bretlandi haldið áfram
Bretlandsmarkaður hefur sem kunnugt er verið í mikilli sókn síðustu misseri. Bretar hafa ekki síst verið duglegir við að heimsækja Ísland utan háannatímans sem eykur enn á mikilvægi markaðarins. Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálaráðs á Bretlandsmarkaði, segir mikilvægt að fylgja þessari velgengni eftir og slaka hvergi á í markaðsstarfinu. Ýmis áhugaverð markaðs- og kynningarverkefni hafa líka verið í gangi að undanförnu.
Vel heppnuð Íslandsvika í Glasgow
Dagana 20.-22. október voru í gangi þrjár kynningar í Glasgow. Skipulagning var í höndum Icelandair UK með stuðningi frá Ferðamálaráði Íslands, Bláa Lóninu, Radisson SAS hótelunum, Mountaineers, Höfuðborgarstofu, Kynnisferðum, Hertz UK og nokkrum aðilum vestanhafs. Fyrsta daginn var morgunverður og kynning með blaðamönnum og daginn eftir "gala" kvöldverður og kynning þar sem 250 starfsmenn ferðaskrifstofa mættu. "Kvöldið var alveg sérlega ánægjulegt. Þarna var einkum um að ræða sölufólk sem starfar "á gólfinu", eins og stundum er sagt, og gott að ná til þeirra sem eru í beinu sambandi við viðskiptavininn. Icelandair UK lagði mikla vinnu í kvöldið og má m.a. nefna að sölustjóri þeirra í Glasgow og aðstoðarkona hans stigu léttan dans "a la Fred & Ginger". Þarna var dansað við Ratpack musik í anda Frank Sinatra og síðar diskó fyrir yngra fólkið. Allir stuðningsaðilarnir fengu viðurkenningu í Óskarsverðlaunastíl og urðu að þakka fyrir sig með ræðustúf. Uppátækið vakti mikla kátínu og menn skemmtu sér hið besta," segir Sigrún.
Síðasta daginn var svo boðið til hádegisverðar í Dunsta kastala skammt frá Edinborg með 30 eigendum og stjórnendum nokkurra ferðaskrifstofa í Skotlandi og N-Englandi og mun heimsókn í kastalann líklega seint líða viðstöddum úr minni. Síðast en ekki síst má nefna íslenska djasstónleika í Menningarmiðstöðinni í Glasgow og að Siggi Hall eldaði og kynnti íslenskan mat á La Bonne Auberge veitingahúsinu við góðar undirtektir. Allir viðburðirnir voru að sögn Sigrúnar mjög vel heppnaðir og mikil ánægja á meðal gesta.
Reykjavík kynnt í London
Þann 24. september sl. buðu Höfuðborgarstofa og Icelandair UK blaðamönnum og ferðaskrifstofufólki til kynningar á borgarbæklingi í Globe leikhúsinu í London. Þátttaka var mjög góð. Þórólfur Árnason borgarstjóri flutti ávarp, sýnt var brot úr hinni margrómuðu uppsetningu á Rómeo og Júlíu sem Vesturport frumsýndi stuttu seinna í New Vic leikhúsinu í London, Jóhanna Guðrún Ólafsdóttir söngkona söng við undirleik eiginmanns síns, gítarleikarans Francisco Javier Jáuregui og Guitar Islancio léku.
Höfuðborgarstofa kynnti þarna "Reykjavik City Guide" í mjög handhægu broti en þar er að finna upplýsingar um veitingahús og bari, söfn og menningu, auk upplýsinga um baðstaði og "spa". Aðrir sem komu að þessum viðburði voru Ferðamálaráð, Bláa lónið og Listahátíð
Heimsóknir fjölmiðla- og ferðaskrifstofufólks
Talsvert margir breskir blaðamenn hafa heimsótt Ísland nú á haustdögum og má að sögn Sigrúnar segja að ennþá birtist daglega eitthvað um Ísland í breskum blöðum og tímaritum. "Þrjár sjónvarpsstöðvar hafa verið eða eru að koma til að gera hér þætti. BBC World Fasttrack gerði 20 mínútna þátt sem sýndur var alla síðustu viku á mismunandi tímum. Þá var BBC Scotland að enda við að taka upp fræðslu- og barnaefni. Loks er svo í byrjun desember von á C5 en þeir hyggjast taka upp "The Perfect Holiday" á Íslandi. Þá hafa verið hér talsvert margir umboðsmenn ferðaskrifstofa og er sérlega ánægjulegt að segja frá því að þó nokkrar ferðaskrifstofur eru að bætast í hóp þeirra sem bjóða ferðir til Íslands," segir Sigrún.