Ólöf Ýrr Atladóttir varaforseti ETC
Varaforsetar ETC með framkvæmdastjóra samtakanna. Frá vinstri: Joao Cotrim frá Portúgal, Ólöf Ýrr Atladóttir, Eduardo Santander, framkvæmdastjóri ETC og Mark Henry frá Írlandi.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri var kjörin einn af þremur varaforsetum Ferðamálaráðs Evrópu ETC á aðalfundi samtakanna sem lauk í dag í Lettlandi. Þetta er í fyrsta sinn sem aðili frá Íslandi gegnir þessu embætti.
Ferðamálastofa hefur í áratugi verið aðili að Ferðamálaráði Evrópu fyrir Íslands hönd. ETC var stofnað árið 1948 og innan samtakanna eru nú 33 ferðamálaráð jafnmargra þjóða.
Starfsemin endurskoðuð
Starfsemi ETC hefur verið í endurskoðun á undanförnum misserum, með virkri þátttöku ferðamálastjóra í þeirri vinnu. ETC mun áfram leggja áherslu á kjarnaverkefni sín á sviði gagnaöflunar og rannsókna í þágu ferðaþjónustunnar, sem og markaðssetningar Evrópu á fjarmörkuðum. Að undanförnu hafa hins vegar ný viðfangsefni bæst við í ljósi vaxandi fylgis þeirra sjónarmiða að nauðsynlegt sé að horfa til fleiri grunneiginleika ferðaþjónustunnar til að styrkja vöxt hennar og viðgang til framtíðar.
Styrkja samstarf og samskipti út á við
Var í dag samþykkt m.a. að halda áfram vinnu að því að opna fyrir aukaaðild aðila úr atvinnulífi og fræðasamfélagi, en auk þess hyggst ráðið styrkja samstarf og samskipti út á við og hefur skilgreint þrjú lykilsvið sem einkum verður unnið á í þessu skyni: sjálfbærni, vegabréfsáritanir og flugtengingar (connectivity). Hver þessara málaflokka verður á ábyrgð og undir stjórn eins nýkjörinna varaforseta.