Ómetanleg Íslandkynning í "The Amazing Race"
Milljónir sjónvarpsáhorfenda í Bandaríkjunum fengu Ísland inn á stofugólf hjá sér í gærkvöld þegar sjötti hluti "The Amazing Race" þáttaraðarinnar hófst á CBS sjónvarpsstöðinni. Þættirnir eru Íslendingum einnig að góðu kunnir en þeir eru sýndir á Stöð 2.
"The Amazing Race" hefst sem sagt á Íslandi að þessu sinni en um er að ræða sérstakan tveggja klukkustunda "upphitunarþátt" áður en sjálf keppnin hefst. Seinna í þáttaröðinni verður síðan aftur sýnt frá Íslandi. Þættirnir voru teknir upp hérlendis síðastliðið sumar, bæði í Reykjavík og víðar um land. Ljóst er að hér er um gríðarlega öfluga landkynningu að ræða enda þættirnir eitt vinsælasta sjónvarpsefni veraldar í dag og unnu m.a. til Emmy verðlaunanna.
Mikill sigur að Ísland skyldi verða fyrir valinu
Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York, Iceland Naturally, Icelandair og fleiri aðilar áttu stærstan þátt í því að gera Íslandsferð "The Amazing Race" að veruleika og Einar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs, segir menn hreinlega í skýjunum með árangurinn. "Staðreyndin er sú að CBS var búin að taka upp 4 eða 5 þætti en valdi þáttinn um Ísland til að byrja þáttaröðina. Markmið þeirra er að ná sem mestu áhorfi og mestri athygli strax í byrjun og að Ísland skuli verða fyrir valinu segir meira en mörg orð um það álit sem menn hafa á landinu. Það er mikill sigur fyrir okkur að verða fyrir valinu sem fyrsti þáttur. Í þáttunum er dregin upp mjög jákvæð mynd af landi og þjóð og þetta hefur hreint út sagt ómetanlegt auglýsingagildi," segir Einar.
Stöðugt vaxandi fjölmiðlaumfjöllun
Talað er að um 15 milljónir Bandaríkjamanna hafi séð þennan fyrsta þátt og hann verður síðan sýndur í um 30 öðrum löndum á næstu vikum og mánuðum. "Staðreyndin er sú að fjölmiðaumfjöllun um Íslend hér í Bandaríkjunum hefur að undanförnu verið meiri en ég hef áður séð. Fyrir svona einu og hálfu ári hélt ég að toppnum hlyti að vera náð en síðan hefur þetta stöðugt haldið áfram að vaxa. Vonandi leiðir þetta til þess að fleiri heimsækja landið og það er alveg á hreinu að bara þáttur eins og "The Amazing Race" verður þess valdandi að Ísland kemst á lista hjá þúsundum fólks sem óskalandið til að heimsækja," segir Einar.
Hann bætir því við að það sé fyrirtaks jólagjöf fyrir íslenska ferðaþjónustu að fá kynningu á borð við þá sem Ísland fékk í gærkvöld. "Það er sannarlega gaman að vera til þegar svona vel gengur og þetta minnir mann bara á aflahroturnar á Sigló í gamla daga," segir Einar og hlær.
Nánar um The Amazing Race á Íslandi