Örfáir punktar - mars 2000
Flokkun gististaða
Óskað hefur verið eftir flokkun á um 60% gistirýmis á Íslandi í fyrstu umferð og virðist stefna í að strax í haust verði allt að 2/3 alls gistirýmis á Íslandi gæðaflokkað þegar flokkunin tekur gildi.
Skrifstofa í París
Skrifstofan hefur nú verið "prufukeyrð" í nokkrar vikur og mikil starfsemi ekki síst nú á mesta ferðasýningartímanum.
Þemafundur
80-90 manns sóttu fyrsta þemafund Ferðamálaráðs á árinu,sem haldinn var 15. febrúar.
Umræðuefnið var kannanir í ferðaþjónustu og notkun niðurstaðna.
Framsögu fluttu fulltrúar fyritækja úr gistiþættinum, flutningaþættinum og afþreyingarþættinum auk fulltrúa Ferðamálaráðs.
Miklar umræður urðu um málefnið og er nú unnið úr þeim ábendingum sem fram komu.
Í samræmi við samþykktir ráðsins verður næsti þemafundur í vor og fjallað um öryggismál.
Gagnagrunnurinn
Unnið er að gerð hugbúnaðarins ( útboð) fyrir grunninn sjálfan.
Næst verður gengið frá samningum við þá sem setja gögn í grunninn.
Rannsóknir
Eins og áður hefur komið fram var unnin aðferðarfræði á síðasta ári við að meta þolmörk ferðamannastaða. Til þess fékkst stuðningur Rannís.
Aðferðinni verður beitt á níu stöðum á landinu og byrjað í Skaftafelli, Lónsöræfum og í Landmannalaugum á þessu ári.
Þá er nú unnið að gerð tölvulíkans til rannsókna á rekstrarforsendum fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Þannig að unnið verður á árinu að rannsóknum sem snerta umhverfismál og rekstrarskilyrði auk þess sem undirbúningur er hafinn vegna fleiri verkefna.
Markaðsverkefni
Unnið er í samræmi við samþykkta fjárhags- og verkefnaáætlun Markaðsráðsins.
Þá hefur verið dreift mjög miklu af grunnkynningarefni; myndböndum, CD-diskum,bæklingum o.fl.
Þá hafa heimsóknir á Íslandsvefinn stóraukist og er allt kapp lagt á að uppfæra hann á sama hátt og innlenda vefinn þannig að í raun séum við að gefa út " nýjan bækling vikulega"
Svörun fyrirspurna á öllum skrifstofum ráðsins er mikil og sérstaklega vaxandi í rafrænu formi.
Ferðasýningar
Nú í mars ná ferðasýningar hámarki og erum við með starfsfólk okkar á stórum sýningum í París, Berlín, Miami, Gautaborg og London.
Sem dæmi um umfangið þá eru rúmlega 40 viðverudagar okkar starfsfólks á umræddum fimm sýningum.
Vest Norden kynning
Dagana 6-9 mars tökum við þátt í sameiginlegu verkefni í Danmörku á vegum Vestnorden ferðamálaráðsins. Markaðsstjórasr landanna og fulltrúar flutningsaðilanna halda "námsstefnu" (seminar) fyrir sölufólk ferðaskrifstofa í Danmörku.
Gert var sérstakt "kennsluefni" fyrir hvert landanna og það notað við kynninguna.
Vestnorden Kaupstefnan
Gert hefur verið samkomulag við Ferðaskrifstofu Íslands um framkvæmd sýningarinnar sem verður í Reykjavík 13-15 september og er nú haldin í 15. sinn.
Innlend kynning
Gert hefur verið samkomulag við Morgunblaðið og Rás 2 vegna framkvæmdar kynningarinnar á þessu ári.
Þá er bæklingur til dreifingar á hvert heimili landsins í vinnslu og verður dreift í maí.
Umhverfisverkefni
Unnið er samkvæmt þeirri samþykkt sem gerð var í ráðinu í desember og verður unnið alls fyrir rúmlega 30 milljónir króna á árinu.
Nýtt vefútlit
Samskiptavefurinn ferdamalarad.is hefur tekið miklum breytingum og er nú meira nýttur sem "fréttabréf" ráðsins fyrir greinina og er þar komið á framfæri því sem efst er á baugi hverju sinni hjá ráðinu.
Þá er þar markaðsáætlun og öll markaðsverkefni svo aðilar geti fylgst með áherslum Markaðsráðsins og hvernig verkefnum miðar.
Hefðbundin verkefni
Auk þessa sem hér hefur verið nefnt eru eðlilega í gangi hefðbundin verkefni þessarar árstíðar.
Má þar nefna söfnun og dreifingu upplýsinga,sem nú hefur breyst verulega þar sem vefnum er nú breytt nær daglega eins og bent var á hér að framan en prentaðar upplýsingar gefnar út í bæklingum og handbókum þrisvar á ári.
Svörun fyrirspurna, sem sífellt aukast í samræmi við breytingar í ferðamynstrinu þ.e. auknum einstaklingsferðum og auknu vægi vetrarferða.
Þá er gífurlega mikið leitað til okkar vegna alls konar upplýsinga um ferðaþjónustu. Er þar bæði um að ræða innlendar og erlendar stofnanir svo og í vaxandi mæli námsfólk. Fer stöðugt meiri og meiri tími í að sinna þessum þætti.
Þá er þetta tími uppgjörs og frágangs bókhalds en þetta krefst vaxandi vinnu bæði vegna aukins umfangs og einnig vegna aukinna krafna stjórnvalda um almennt aukna pappírsvinnu í þessum þætti.
M.O. mar. 2000.