Ráðherra ferðamála í heimsókn
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra heimsótti í liðinni viku höfuðstöðvar Ferðamálastofu í Gimli við Lækjargötu. Með í för voru Einar Karl Haraldsson, aðstoðarmaður hans, og Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í ráðuneytinu.
Í þessari fyrstu heimsókn nýs ferðamálaráðherra til stofnunarinnar gafst honum tækifæri til að spjalla við starfsfólk, kynnast viðhorfum þess og kynna sér hin margþættu viðfangsefni stofnunarinnar. Þannig kynnti Auðbjörg Gústafsdóttir, forstöðumaður stjórnsýslu- og gæðasviðs þá starfsemi sem lýtur að leyfisveitingum; Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs, ræddi starfsemi Ferðamálastofu á sviði markaðsmála á erlendri grundu og Oddný Þ. Óladóttir verkefnisstjóri fjallaði um rannsóknir og kannanir þær sem Ferðamálastofa kemur að. Að loknu spjalli skoðaði iðnaðarráðherra húsakynni stofnunarinnar.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri kvað sig og annað starfsfólk afar ánægt með heimsókn ráðherra. Heimsóknin hafi verið á óformlegum nótum og starfsfólki hafi gefist kostur á að ræða ýmis mál beint og milliliðalaust, auk þess sem ráðherra sé vonandi nokkru fróðari um starfsemi Ferðamálastofu.