Ráðstefnu- og tónlistarhús kynnt í Bandaríkjunum
Á vegum Ferðamálastofu og Ráðstefnuskrifstofu Íslands fara nú fram markvissar kynningar í Bandaríkjunum á möguleikum til ráðstefnuhalds og hvataferða á Íslandi, en þetta er einn mikilvægasti þáttur ferðaþjónustu. Harðsnúið lið sölufólks er nú að störfum í New York, Minneapolis og Washington. Á hverjum stað er sérhæfðum ráðstefnu- og hvataferðaskrifstofum boðið til móttöku og síðan fara fram stuttar kynningar á Íslandi sem ferðamannalandi, nýju tónlistar og ráðstefnuhúsi og hóteli, ásamt flugi til Íslands og öðrum ferðamöguleikum og hótelaðstöðu.
Umgjörðin ævintýraleg
Að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu og stjórnarformanns Ráðstefnuskrifstofu Íslands fara kynningarnar fram við einkar skemmtilegar aðstæður. Valdir voru frábærir staðir til að vera umgjörð um kynningarnar en þær fóru fram á Walkers listasafninu i Minneapolis, á Explorers Club í New York og í sendiherrabústað Íslands í Washington. Staðirnir eru mjög ólíkir en hver og einn einstakur. "Það sem skiptir mestu máli er að hér hittum við rétta fólkið sem tekur ákvörðun um hvert viðskiptavinir þeirra fara og með því að geta kynnt tónlistar og ráðstefnuhúsið samtímis gefst okkur einstakt tækifæri á að koma okkur a kortið á þessu svæði austurstrandarinnar" segir Ársæll.
Skrifstofa Ferðamálastofu i New York hefur skipulagt viðburðinn í samvinnu við Önnu Valdimarsdóttur, verkefnisstjóra Ráðstefnuskrifstofu Íslands. Einar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofunnar í New York, segir að móttökurnar séu framar vonum og að það sé stórkostlegt geta kynnt svo metnaðarfullt verkefni sem tónlistar- og ráðstefnuhúsið er. "Það mun skipta sköpum fyrir Ísland í framtíðinni að hafa lagt út í þann leiðangur" segir Einar.
Nýtt kynningarefni og ?Get The Idea?
Að sögn Ársæls er hópurinn mjög samstilltur og einbeittur. "Það er frábært hve mikil þróun er í íslenskri ferðaþjónustu, meðal hótela, veitingastaða og ekki síst með tilkomu tónlistar- og ráðstefnuhúss. Svo er sérstakt fagnaðarefni að Portus Group er nú orðinn virkur aðildarfélagi í Ráðstefnuskrifstofu Íslands og það hleypir nýju afli í verk okkar. Við erum með nýtt kynningarefni undir heitinu "Get The Idea" og er hugmyndin að kynna Ísland og Reykjavik sem stað þar sem nýjar hugmyndir fæðast og sköpunargleðin fær lausan taum," segir Ársæll að lokum.
Myndin hér að neðan er er tekin i Explorers Club i New York. Standandi frá vinstri: Einar Gústavsson Ferðamálastofu, Anna Valdimarsdóttir Ráðstefnuskrifstofu Íslands, Daniel Serritello Icelandair, Ársæll Harðarson Ferðamálastofu, Þórhallur Vilhjálmsson Portus Group, Helga Lára Guðmundsdóttir Iceland Travel og Ásthildur Sturludóttir Portus Group. Sitjandi, Heiðveig Jóhannsdóttir Reykjavík Hótels og Arndís Anna Reynisdóttir Hilton Reykjavik. Ljósmynd: Bo Sounders.