Fara í efni

Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu 2024-2026

Þriggja ára Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu fyrir tímabilið 2024-2026 hefur verið staðfest af ferðamálaráðherra og birt á vef stofnunarinnar. Í henni er m.a. lýst þeim 9 verkefnum sem unnið verður að á næstu misserum.

Áætlunin er unnin í samræmi við reglugerð nr. 20/2020 um gagnaöflun og rannsóknir á sviði ferðamála og það lögbundna hlutverk Ferðamálastofu að vinna að samræmingu, greiningum og gagnaöflun ásamt miðlun og úrvinnslu upplýsinga á málefnasviði stofnunarinnar.

Veruleg raunlækkun á fjárheimildum

Í formála sem Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri ritar segir hann m.a. „Umfangsmikil og áreiðanleg gögn eru grundvöllur fyrir skynsamlegri stefnumótun og árangursríkri stýringu, bæði fyrir stjórnvöld, sem móta ýmis rekstrarskilyrði greinarinnar og fyrirtæki í ferðaþjónustu sem taka helstu ákvarðanir um þróun hennar.“ Hann bendir hins vegar á að veruleg raunlækkun hefur verið á fjárheimildum og þar með ráðstöfunarfé Ferðamálastofu til rannsókna og gagnaöflunar frá árinu 2020, þótt þörfin sé brýn, og endurspeglar áætlunin 2024-2026 þennan fjárskort. „Rannsóknaráætlunin fyrir 2024-26 einkennist því öðru fremur af viðleitni til að nýta takmarkað rannsóknarfé betur,“ segir Arnar Már.

Umsagnir í samráðgátt

Undir þetta tóku Samtök ferðaþjónustunnar þegar áætlunin var til umsagnar í samráðgátt stjórnvalda fyrr í sumar og benda á að miklu minna fé bæði mælt í krónutölu og miðað við framlag til vergrar landsframleiðslu er varið til gagnaöflunar og rannsóknar í ferðaþjónustu en í öðrum grunnatvinnuvegum landsmanna, þ.m.t sjávarútvegi, orkuframleiðslu og landbúnaði. Útdráttur úr umsögnum birtist í rannsóknaráætluninni en umsagnirnar eru aðgengilegar í fullri lengd í samráðsgátt stjórnvalda.

Horft til aðgerðaáætlunar

Í júní síðastliðnum samþykkti alþingi þingsályktunartillögu Lilju Daggar Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Arnar Már segir stofnunina horfa til þessarar nýju aðgerðaáætlunar og að fengnum upplýsingum um fjármögnun hennar frá og með árinu 2025 mun Ferðamálastofa aðlaga rannsóknaráætlun að auknum umsvifum. „Að því sögðu hefur rannsóknaráætlunin að geyma hugmyndir og vissa útfærslu á mikilvægum rannsóknarverkefnum sem unnt er að hefja með tiltölulega skömmum fyrirvara fáist til þeirra nauðsynlegt fjármagn,“ segir Arnar.

Verkefni 2024–2026

Sem fyrr segir er í áætluninni lýst þeim 9 verkefnum sem unnið verður að á næstu misserum árlegum kostnaði við þau. Verkefnin eru:

  1. Fjöldi ferðamanna til landsins
  2. Landamærarannsókn: Lýðfræði, ferðahegðun, upplifun og útgjöld ferðamanna
  3. Viðhorf Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu
  4. Ferðahegðun Íslendinga
  5. Ferðahegðun erlendra gesta á völdum þéttbýlisstöðum
  6. Dreifing ferðamanna um landið – Teljarar á viðkomustöðum
  7. Greining á fjárhag og rekstri fyrirtækja í ferðaþjónustu
  8. Gagnagrunnur ferðaþjónustunnar
  9. Þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustu

Ráðgjöf um rannsóknarverkefni

Ráðgefandi nefnd um rannsóknir og gagnaöflun í ferðaþjónustu veitir Ferðamálastofu ráðgjöf um skynsamleg verkefni þar sem leitast er við að draga fram vísindalega þekkingu, kunnáttu og sérfræði hagsmunaaðila í greininni. Ráðgjöf nefndarinnar og fundargerðir eru birtar sem viðauki í skýrslunni.