Fara í efni

Rekstarumhverfi ferðaþjónustu hagstæðara á Íslandi en hinum Norðurlöndunum

madurvidfoss
madurvidfoss

Rekstrarumhverfi ferðaþjónustu er hagstæðara á Íslandi en í nágrannalöndum okkar og samkeppnishæfni greinarinnar þannig betri. Þetta er meginniðurstaða nýrrar skýrslu sem kynnt var í gær þar sem rekstrarumhverfi ferðaþjónustu á Íslandi er borið saman við Danmörku, Noreg  og Svíþjóð. Skýrslan var unnin fyrir Ferðamálastofu sem hluti af ferðamálaáætlun 2006-2015.

Skýrslan er byggð upp með þeim hætti að varðandi rekstrarumhverfi var horft á þátt ríkisvaldsins í að skapa samkeppnishæf rekstrarskilyrði fyrir ferðaþjónustu, efnahagsástand skoðað, skattaumhverfi, tekjur starfsmanna, verðlag og samkeppnishæfni. Í markaðsumhverfinu var horft á markhópinn ferðamenn, hver þróunin er í fjölda ferðamanna, á hvaða árstíma þeir ferðast og hvernig þeir dreifast um löndin.

Atvinnugreinin nýtt sér það umhverfi sem stjórnvöld hafa skapað
?Niðurstöðurnar staðfesta að mínu mati  að stjórnvöld hafa á undanförnum árum skapað íslenskri ferðaþjónustu betra rekstrarumhverfi á flestum sviðum en er  í samkeppnislöndum  okkar. Enda hefur atvinnugreinin nýtt sér það umhverfi sem stjórnvöld hafa skapað þannig að íslensk ferðaþjónusta er að ná hlutfallslega mun meiri árangri í vexti en samanburðarlöndin og verulega umfram meðaltalið á heimsvísu?, segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri. ?Það vakti sérstaka athygli mína í niðurstöðunum að þegar litið er til íbúafjölda og þar með vinnuafls að Höfuðborgarsvæðið er með um 64% íbúanna en um 40% gistinátta og þá landsbyggðin með 36% íbúa landsins er með um 60% af umfanginu. Það er mun meiri jöfnuður í þessu í samanburðarlöndunum en hér er landsbyggðin að ná hlutfallslega mun meiri árangri miðað við íbúafjölda en dreifbýli samanburðarlandanna?, segir Magnús.

Mesti vöxturinn á Íslandi
Í helstu niðurstöðum skýrslunnar er fyrst vakin athygli á samanburði World Economic Forum árið 2006 þar sem metnir voru 13 þættir sem snúa að samkeppnishæfni 124  landa í ferðaþjónustu. Eins og fram hefur komið var Ísland samkeppnishæfast af löndunum fjórum. Var í 4. sæti í heildinni, Noregur númer 11, Svíþjóð í 17. sæti og Danmörk  23. Þá komast skýrsluhöfundar að því að umfang í ferðaþjónustu hefur aukist hlutfallslega mest á Íslandi af samanburðarlöndunum þegar skoðuð eru árin 1999-2005 eða um 32,5% í gistinóttum talið. Vöxtur í Svíþjóð er 12,8%, í Noregi 7,5% en í Danmörku er engin aukning á þessu tímabili.

Hagstæðasta skattaumhverfið
Skattaumhverfið á Íslandi er betra til fyrirtækjarekstrar en í samanburðarlöndunum. Skattur á hagnað fyrirtækja sem og skattur af arðgreiðslum er umtalsvert lægri. Þá er virðisaukaskattur á Íslandi er á öllum stigum með lægri skattprósentu en samanburðarlöndin. Hærra hlutfall hagnaðar helst því í rekstrinum á hverju ári og það þarf lægri launagreiðslur til starfsmanna til að ná upp í hærri ráðstöfunartekjur. 
Það er aðeins gjald á áfengi sem er hærra á Íslandi en í samanburðarlöndunum.

Meira vægi fyrir þjóðarbúið
Hlutfall ferðaþjónustu af vergri landsframleiðslu er hæst á Íslandi og hefur því atvinnugreinin meira vægi í íslensku hagkerfi en í hagkerfi samanburðarlandanna. Í Noregi er hlutafallið lægst 2,4%, Svíþjóð 2,7%, í Danmörku 3,0%, en á Íslandi er  hlutfallið 6,3%.

Markaðsumhverfið
Ýmislegt áhugavert kemur einnig í ljós þegar markaðsumhverfið er skoðað. Meðal annars er hlutfall erlenda markaðarins mest á Íslandi af samanburðarlöndunum um 70%, í Danmörku 50% um 30% í Noregi og rúm 20% í Svíþjóð. Á meðan megnið af erlendum ferðamönnum í samanburðarlöndunum koma frá fáum löndum eru erlendir ferðamenn á Íslandi frá fleiri markaðssvæðum en hinna landanna og dreifir það áhættu, þar sem ekkert eitt markaðssvæði er yfirgnæfandi. Árstíðarsveiflan í ferðaþjónustu þegar litið er til gistinátta er mest á Íslandi, næst  er Danmörk, þá Noregur og minnst er sveiflan í Svíþjóð. Þetta helst í hendur við hlutfall  heimamarkaða af heildinni sem nýtist til jöfnunar sveifunnar

Lágt hlutfall gistinátta á höfuðborgarsvæðinu
Höfuðborgarsvæðið á Íslandi er með mjög lágt hlutfall af heildarfjölda gistinátta er litið er til hlutfalls íbúafjölda og það lægsta samanburðarlöndunum. Höfuðborgarsvæðin er alls staðar með hærra hlutfall gistinátta en landsbyggð þegar litið er stærðar landsvæðis, en hvergi eins hátt og á Íslandi. Þetta skýrist að mestu leyti af því að meirihluti íslensku þjóðarinnar er samankomin á höfuðborgarsvæðinu meðan íbúar samanburðarlandanna dreifast meira og þar með vinnuafl og möguleiki til þjónustu.

Þeir þættir sem koma ver út í samanburðinum
Gengissveiflur eru örari og meiri á Íslandi, en þær virðast hafa lítil áhrif á komur ferðamanna til landsins. Stýrivextir eru verulegra hærri en í samanburðarlöndum. Áfengisgjaldið er umtalsvert hærra á Íslandi, þó Noregur sé einnig með há áfengisgjöld.  Árstíðarsveiflur eru meiri á Íslandi í gistinóttum talið en það má skýra með örum vexti í komum ferðamanna til Íslands yfir háannatímann sem dvelja að meðaltali lengur þrátt fyrir góðan vöxt allt árið.  Almennt verðlag er hærra, en bilið hefur minnkað undanfarið ár. 

Samandregnar niðurstöður
Í samandregnum niðurstöðum segja skýrsluhöfundar meðal annars: ?Þar sem ferðaþjónustan á Íslandi telur hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu atvinnugreinin  mikilvægari fyrir íslenskt efnahagslíf en fyrir efnahagslíf samkeppnislandanna, og því frekar að rekstrarskilyrði séu hagstæðari.  Því má gera því skóna að meiri hlutfallsleg aukning í ferðaþjónustu hér á landi en í samanburðarlöndunum sé einmitt í samræmi við þau rekstrarskilyrði sem atvinnugreininni eru búin og eru að mörgu leyti betri en í umræddum löndum. Þegar á heildina er litið er umhverfi ferðaþjónustu hagstæðara á Íslandi en í samanburðarlöndunum, þó hægt sé að finna einstaka þætti sem mætti bæta á Íslandi til að gera íslenska ferðaþjónustu enn samkeppnishæfari.?