Samgönguráðherra fagnar því að ÍSLENDINGUR sé á heimleið
Samgönguráðherra, sem er ráðherra ferðamála, fagnar því að tekist hafi að leysa málefni víkingaskipsins ÍSLENDINGS og því frumkvæði sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar tók í málinu. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu ráðuneytisins.
Í næstum tvö ár hefur ríkt óvissa um framtíð skipsins og er því forganga Reykjanesbæjar um lausn málsins sérstakt fagnaðarefni. Í Njarðvík, nýrri heimahöfn skipsins, mun það fá hlutverk sem skipinu sæmir og mun það efla íslenska ferðaþjónustu. Er öllum sem að þessu verki hafa komið óskað til hamingju með þetta framfaraskref.
Vegna árþúsundamótanna fór fram umfangsmikil kynning á Íslandi vestanhafs á árinu 2000. Sá liður kynningarinnar sem fékk mesta athygli var sigling víkingaskipsins og náði umfjöllun fjölmiðla til milljóna manna. Sérstakan áhuga vakti framganga áhafnarinnar enda ekki á allra færi að sigla yfir Atlantshafið við aðstæður sem tíðkuðust fyrir þúsund árum.
Gunnar Marel Eggertsson, sem smíðaði skipið og var jafnframt skipstjóri þess, stóð í eldlínunni og vakti mikla athygli fjölmiðla vestanhafs. Það kom því engum á óvart er Gunnar hlaut fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs árið 2000. Ferðaþjónustan kom þannig á framfæri við hann, og áhöfnina alla, innilegu þakklæti fyrir frábærlega vel unnin störf í þágu greinarinnar. Samgönguráðherra færir öllum sem að því komu að fá ÍSLENDING heim á ný sínar bestu þakkir.