Fara í efni

Samið um ritun og útgáfu á sögu ferðaþjónustunnar

Saga ferðaþjónustunnar - ritnefnd
Saga ferðaþjónustunnar - ritnefnd

Samtök ferðaþjónustunnar höfðu sem kunnugt er frumkvæði að því að láta skrifa sögu ferðaþjónustunnar. Skrifað hefur verið undir samkomulag við Bókaútgáfuna Opnu um útgáfuna en áður gerði Opna samkomulag við Helgu Guðrúnu Johnson og Sigurveigu Jónsdóttur um að skrifa bókina. 

Kemur út 2014
Bókin verður 350 bls. í brotinu 230 x 280 mm. og verður ríkulega myndskreytt.  Útgáfudagur verður í síðasta lagi 1. október 2014 en skrifin hefjast í janúar 2013 og er gert ráð fyrir að þau taki eitt ár. SAF og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gerðu á fyrra með sér samning um fjármagn til verksins.

Vel skipuð ritnefnd
Í ritnefnd eiga sæti: Hildur Jónsdóttir, Farvegur ehf. -formaður nefndarinnar, Áslaug Alfreðsdóttir, Hótel Ísafirði, Guðjón Arngrímsson Icelandair, Helga Haraldsdóttir, atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti og Magnús Oddsson, fyrrv. ferðamálastjóri.  Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF, starfar með nefndinni. 

Viðtöl við frumkvöðla á vef SAF
Höfundar munu víða geta leitað fanga.  SAF og áður SVG hafa látið skrifa viðtöl við fjölda fólks í ferðaþjónustu en þau eru á heimasíðu SAF.  Það er von allra aðstandenda að bókin verði fróðleg, lifandi og skemmtileg lesning.

Gögn frá Kjartani Lárussyni
Stjórn SAF ákvað fyrir skömmu að festa kaup á miklu gagnasafni, sem Kjartan Lárusson hefur safnað síðustu 40 árin og er þessa dagana verið að koma því fyrir í Menntaskólanum í Kópavogi.  Gögnin munu fá verðugan sess í bókasafni skólans sem verður fljótlega endurhannað og verður það geymt þar sem eign SAF þangað til safn helgað ferðaþjónustunni verður sett á laggirnar í framtíðinni. 


Mynd: Ritnefnd SAF auk fulltrúa bókaútgefanda og rithöfundum. Frá vinstri Magnús Oddsson, Erna Hauksdóttir, Helga Johnson, Hildur Jónsdóttir, formaður ritnefndar, Sigurveig Jónsdóttir, Sigurður Svavarsson, Útgáfufélaginu Opnu, Guðjón Arngrímsson og Helga Haraldsdóttir. Á myndina vantar Áslaugu Alfreðsdóttur sem á sæti í ritnefnd.