Samið við Epinion um framkvæmd landamærarannsóknar
© Ragnar Th. Sigurðsson - Arctic-images.com
Ferðamálastofa og Hagstofa Íslands hafa gengið að tilboði Epinion P/S um framkvæmd landamærarannsóknar á Keflavíkurflugvelli. Epinion er eitt af stærstu markaðsrannsóknafyrirtækjum Evrópu og hefur það sérhæft sig í framkvæmd flugvallakannana. Verkefnið var boðið út á vegum Ríkiskaupa á Evrópska efnahagssvæðinu í október síðastliðnum.
Gagnaöflun á Keflavíkurflugvelli og netkönnun
Verkefnið er unnið fyrir aukafjárveitingu sem fékkst af fjárlögum í rannsóknir í ferðaþjónustu. Áætlað er að framkvæmd rannsóknarinnar hefjist á Keflavíkurflugvelli á vormánuðum og að fyrstu niðurstöður verði birtar í sumar. Rannsóknin mun beinast að ferðamönnum á Íslandi og byggja á gagnaöflun á Keflavíkurflugvelli sem fylgt verður eftir með netkönnun meðal svarenda sem þeir fá senda eftir heimkomu.
Áreiðanlegri tölfræði og reglulegar niðurstöður
Með rannsókninni verður til áreiðanlegri tölfræði um fjölda, útgjöld, atferli og viðhorf ferðamanna. Gert er ráð fyrir að birta niðurstöður mánaðarlega á vef Ferðamálastofu en mánaðarlegar niðurstöður gefa kost á að geta betur fylgst með breytingum á ferðamynstri og viðhorfum ferðamanna.