Fara í efni

Samningur um eflingu rannsókna á sviði ferðamennsku

rannsoknirasvidiferdamennsku
rannsoknirasvidiferdamennsku

Ferðamálaráð og Ferðamálasetur Íslands hafa gengið frá samningi sem hefur að markmiði að efla enn frekar rannsóknir og þróun á sviði ferðaþjónustu og ferðamennsku.

Ferðamálasetur Íslands var stofnað í september 1999. Það er til húsa í húsnæði Háskólans á Akureyri á Sólborg en stofnunin er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Ferðamálasetrið er miðstöð rannsókna, fræðslu og samstarfs í greinum sem tengjast ferðamálum. Markmið stofnunarinnar er m.a. að efla rannsóknir og menntun á sviði ferðamála, styrkja tengsl háskólastarfs og atvinnulífs og auka þekkingu um ferðamál. Helstu verkefni snúast um rannsóknir í faginu, samstarf við innlenda og erlenda rannsóknaraðila, útgáfu fræðirita og kynningarbæklinga, upplýsingamiðlun, ráðgjöf og að gangast fyrir námskeiðum, ráðstefnum og fyrirlestrum í ferðamálafræðum.

Í áðurnefndum samningi kemur fram að Ferðamálaráð leggur Ferðamálasetrinu til ákveðna fjárupphæð mánaðarlega vegna rannsókna eða þróunarverkefna í ferðaþjónustu. Er m.a. kveðið á um að stofnanirnar vinni sameiginlega áætlun um hvers konar rannsóknir og/eða þróunarverkefni sem Ferðamálasetrið vinni á næstu mánuðum.