Samningur um suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs
Samningur um gerð verndaráætlunar, rekstur og uppbyggingu á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs var undirritaður í Freysnesi í Öræfum síðastliðinn föstudag. Þá var einmitt Dagur umhverfisins.
Fjölþætt markmið
Markmið samningsins eru fjölþætt. Til dæmis á að móta stefnu um að jafna ágreining á milli ólíkra hagsmunaaðila um nýtingu og verndun landslagsheilda og skapa þannig samstöðu í samfélaginu eftir því sem kostur er um markmið, starfsemi og uppbyggingu þjóðgarðsins; að marka stefnu um uppbyggingu mannvirkja, vega, reiðleiða, göngubrúa og helstu gönguleiða; að móta stefnu um uppbyggingu og starfsemi þjóðgarðsins og marka stefnu um sjálfbæra nýtingu í og við þjóðgarð, hvernig tryggja beri vernd líffræðilegrar fjölbreytni og landslagsheilda. Einnig á að fjalla um nýtingu innan marka þjóðgarðsins, t.d. hvað varðar sauðfjárbeit, veiðar á fuglum og dýrum og aðra starfsemi. Í þessari vinnu verður sérstaklega gætt að miklu samráði við nefndir sveitarfélagsins, yfirstjórn þjóðgarðsins og hagsmunaaðila. Áhersla er lögð á að landeigendur sem eiga land innan eða við mörk þjóðgarðs, bændur, útivistarfólk, ferðaþjónustuaðila og náttúruverndarsamtök .
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri skrifaði undir samninginn sem varaformaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, ásamt þeim Þorvarði Árnasyni, forstöðumanni Háskólasetursins á Höfn og Hjalta Þór Vignissyni, bæjarstjóra á Höfn og formanns svæðisráðs Suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs. Sama dag var einnig efnt til fræðslufunda, bæði í Freysnesi í Öræfum og í Nýheimum á Höfn. Þeir hófust með ávarpi Ólafar Ýrr sem einnig svaraði fyrirspurnum fundargesta. Þá notaði hún tækifærið til að kynna sér ferðamál á svæðinu.
Mynd: Þorvarður, Ólöf Ýrr og Hjalti Þór að undirskrift samnings lokinni.