Fara í efni

Samráðsfundur með markaðs- og áfangastaðastofum

Efsta röð frá vinstri: Kristján Guðmundsson, Vesturlandi; Sölvi Guðmundsson, Vestfjörðum og Ragnhild…
Efsta röð frá vinstri: Kristján Guðmundsson, Vesturlandi; Sölvi Guðmundsson, Vestfjörðum og Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, Suðurlandi. Miðröð: Heiðrún Erika Guðmundsdóttir, Ferðamálastofu; Arnheiður Jóhannsdóttir, Norðurlandi; Inga Hlín Pálsdóttir, Höfuðborgarsvæðinu og Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri. Fremsta röð: Elías Bj. Gíslason, Ferðamálastofu; Þuríður H. Aradóttir Braun, Reykjanesi og Helena Þ. Karlsdóttir, Ferðamálastofu. Á myndina vantar Elínu Gróu Karlsdóttur frá Ferðamálastofu og Alexöndru Tómasdóttur frá Austfjörðum.

Ferðamálastofa og markaðs- og áfangastaðastofur landshlutanna eiga í nánu og góðu samstarfi, bæði með formlegum og óformlegum hætti. Síðastliðinn föstudag hittust sviðstjórar Ferðamálastofu, ferðamálastjóri og þau sem eru í forsvari fyrir sín svæði til að stilla saman strengi. Mikilvægt er að samhljómur sé í vinnu þeirra sem fara með skipulagningu og þróun fyrir hönd opinberra aðila í þessarar víðfeðmu atvinnugrein.

Markaðs- og áfangastaðastofur eru nú starfandi í öllum landshlutum eftir að markaðs- og áfangastaðastofa fyrir höfuðborgarsvæðið var stofnuð um mitt ár 2023. Ferðamálastofa hefur frá árinu 2021 stutt dyggilega við stofurnar með langtímasamningum enda nauðsynlegt að fyrirsjáanleiki sé fyrir hendi hvað varðar uppbyggingu og rekstur. Auk Ferðamálastofu og sveitarfélaga koma fyrirtæki í greininni að rekstrinum í gegnum aðildarsamninga.

Margþætt hlutverk

Hlutverk markaðs- og áfangastaðastofa er margþætt, s.s. gerð og framkvæmd áfangastaðaáætlana, aðkoma að stefnumótun og áætlanagerð á landsvísu, vöruþróun og nýsköpun, svæðisbundin markaðssetning o.fl.
(Sjá nánar hér).

Þurfa traust bakland í heimabyggð

Mikilvægt er að markaðs- og áfangastaðastofur eigi traust bakland í heimabyggð. Því skorar Ferðamálastofa á ferðaþjónustufyrirtæki sem ekki eru aðildarfélagar í markaðs- og áfangastaðastofu á sínu svæði að taka þátt enda hafa þær sannað gildi sitt.

Vekur athygli erlendis

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri segist hafa tekið eftir að eitt af því sem verkur eftirtekt og forvitni hjá kollegum hans erlendis sé heildarskipulagning þessara
mála hérlendis. Þá ekki síst starfsemi markaðs- og áfangastaðastofa og sá árangur
sem náðst hefur með þeim.