Samstaða og baráttuhugur einkenndi ferðamálaþing
Samstaða og baráttuhugur einkenndi fjölsótt ferðamálaþing á Hilton Reykjavík Nordica í gær. Tæplega 300 manns sóttu þingið sem Ferðamálastofa stóð fyrir í samvinnu við iðnaðarráðuneytið.
Ákveðið var að breyta áður ákveðinni dagskrá þingsins og helga það þeim atburðum sem hæst hafa borið síðustu daga, það er eldgosinu í Eyjafjallajökli og áhrifum þess á ferðaþjónustuna. Á þinginu kom skýrst fram að mesta tjónið sem tengist gosinu er það sem ferðaþjónustan hefur orðið fyrir og hefur nú meðal annars verið brugðist með sérstöku markaðsátaki í samvinnu stjórnvalda og greinarinnar, sem formlega var skrifað undir á þinginu.
Þjóðverjinn Norbert Pfefferlein flutti erindi sem hann kallaði ?Tourism means globalization ? natural disasters are global by nature?. Þar fór hann yfir náttúruhamfarir og aðrar hamfarir sem dunið hafa á ferðaþjónustunni á liðnum árum og hver áhrif þeirra hafa verið til lengri og skemmri tíma. Í máli sínu lagði hann m.a. áherslu á mikilvægri þess að koma réttum skilaboðum á framfæri. Hann taldi ýmis tækifæri fyrir Ísland í núverandi stöðu, í kjölfar mikillar fölmiðlaumfjöllunar.
Erindi Valþórs Hlöðverssonar, framkvæmdastjóra Athygli, fjallaði einmitt um að móta umræðuna. Hann taldi viðbrögð í þeim efnum hafa verið skjót í kjölfar eldgossins. Sérstakt viðbragsteymi hafi tekið til starfa og gripið til ýmissa ráða til að beina umræðunni á réttar brautir.
Sigurður Valur Sigurðsson frá Iceland Express og Helgi Már Björgvinsson frá Icelandair fóru yfir áhrif gossins frá sjónarhóli flugfélaganna. Sigurður Valur sagði ljóst að stóra tjónið væri hjá flugfélögunum og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Hann ítrekaði mikilvægi markaðsátaksins, sem væri djörf hugmynd sem vonadi myndi ganga upp. Helgi Már fór m.a. yfir hvernig Icelandair brást við með breytingum á flugáætlun sinni. Þá rakti hann viðbrögð við öðrum ógnunum sem hafa komið upp. Hann lagði áherslu á þau tækifæri sem Ísland hefði þrátt fyrir þessa ógnun nú.
Þórólfur Árnason, stjórnarformaður ISAVIA, fór yfir gestgjafahlutverkið, þjónustu og væntingar. Lagði hann m.a. áherslu á mikilvægi þess að setja sér markmið og huga einnig að innviðum
Leó Sigurðsson öryggis- heilsu- og umhverfisstjóri Actavis á Íslandi, fór yfir hættur og ógnanir, hvernig Actavis hefur brugðist við ógnunum, hvað þyrfti að gera til að vera undirbúin að bregðast við.
Þá fjallaði Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri um nýútkomna skýrslu sem unnin var að hennar beiðni. Farið var í að móta og framkvæma verkefni í anda sviðsmyndagerðar (scenarios) um hugsanlega atburðarrás við framvindu eldgossins í Eyjafjallajökli og áhrif náttúruhamfaranna á ferðaþjónustuna. Einnig að gera gróf drög að viðbragðsáætlun fyrir ferðaþjónustuaðila til að mæta hugsanlegum áföllum og/eða tækifærum.
Eldfjöll selja, voru skilaboð Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðings, sem m.a. hefur reynslu af því að bjóða upp á sérstakar ferðir þar sem fólk skoðar fræðist um og skoðar eldfjöll. Hann taldi stjórnvöld ekki hafa brugðist nægjanlega vel við Eyjafjallajökulsgosinu og glatað tækifæri á að nýta sér þá miklu fjölmiðlaumfjöllun sem Ísland naut.
Að lokum sátu fyrir svörum þau Helgi Már Björgvinsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair; Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri; Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála; Sigurður Valur Sigurðsson sölu og markaðsstjóri Iceland Express og Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF. (Sjá mynd)
Öll erindi frá ráðstefnunni munu koma hér inn á vefinn.