Samstarf Ferðamálastofu, Útflutningsráðs og sendiráða kynnt í Kaupmannahöfn
Eins og fram hefur komið var í vetur skrifað undir samning um aukið samstarf Ferðamálastofu, Útflutningsráðs og utanríkisþjónustunnar með það fyrir augum að samhæfa og efla kynningu á Íslandi. Í liðinni viku var kynning og vinnufundur í Kaupmannahöfn af þessu tilefni.
Í ávarpi sínu sagði Ólöf Ýrr Atladóttir meðal annars að Norðurlöndin væri fyrsti markaðurinn þar sem nýtt skipulag landkynningar- og markaðsmála er innleitt. Stefnt er að því að sendiráð Íslands styðji við og sinni markaðsstarfi á helstu mörkuðum ferðaþjónustunnar í náinni samvinnu við Ferðamálastofu og Útflutningsráð. Á fundinum var nánar farið yfir skipulag og verkaskiptingu í þessum efnum. Á höndum sendiráðanna verður m.a. upplýsingagjöf, skipulagning sýninga og annarra viðburða, samskipti við fjölmiðla erlendis og ferðaþjónustuaðila í viðkomandi löndum. Ferðamálastofa skipuleggur starfið í heild, sér m.a. annars um heimsóknir fjölmiðla og sölufólks, útgáfu og dreifingu kynningarefnis o.fl.
Einnig var haldinn vinnufundur í sendiráðinu í Kaupmannahöfn þar sem Sigrún Hlín Sigurðardóttir, forstöðumaður sérverkefna á markaðssviði Ferðamálastofu, kynnti starfsemi hennar og vinnutilhögun við ferðamálakynningar fyrir Íslands hönd á erlendri grundu. Fundinn sátu starfsmenn sendiráðanna Norðurlöndum og í Berlín sem sérstaklega hafa verið tilnefndir sem umsjónarmenn ferðamála í viðkomandi ríkjum. Þessir starfsmenn eru: Rósa Viðarsdóttir, Kaupmannahöfn; Elín Óskarsdóttir, Stokkhólmi; Arna Lísbet Þorgeirsdóttir, Helsinki; Lára Jónsdóttir, Osló (tímabundið); og Ruth Bobrich, Berlín en hún verður Davíð Jóhannssyni, hjá Ferðamálastofu í Frankfurt innan handar er hann flyst til Berlínar og heldur starfinu úti úr sendiráðinu.