Samstarf um bætt aðgengi allra að ferðamannastöðum
Í dag var skrifað undir samstarfssamning sem miðar að bættu aðgengi allra að áningar- og útivistarstöðum um allt land. Aðilar samningsins eru Ferðamálastofa, Öryrkjabandalag Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðaþjónusta bænda og Ferðamálasamtök Íslands.
Skrifað undir samninginn. Frá vinstri: Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF; Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands; Sturla Böðvarsson samgönguráðherra; Magnús Oddsson ferðamálastjóri; Hafdís Gísladóttir, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands og Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri Ferðaþjónustu Bænda. |
Viðmið um aðgengi að ferðamannastöðum
Fyrsta skrefið var að flokka gróflega hreyfihömlun eftir eðli hennar og síðan að útbúa ásættanleg viðmið varðandi aðgengi að áningarstöðum utandyra. Við gerð þessara viðmiða var að einhverju leiti stuðst við erlendar fyrirmyndir, við lög og reglugerðir og ekki síst var bókin ?Aðgengi fyrir alla ?handbók um umhverfi og byggingar?1) notadrjúg. Ástæðan fyrir því að tekið er sérstaklega fyrir aðgengi að náttúrulegum svæðum er að byggingareglugerðir segja til um hvernig aðgengi að mannvirkjum skulu vera en minni hefð er fyrir því að tekið sé tillit til hreyfihamlaðra við skipulag og framkvæmd á áningar- og útivistarsvæðum.
Viðmiðin eru flokkuð eftir því hver hreyfihömlunin er og síðan miðað við það hvað er ásættanlegt aðgengi í hverjum flokki. Í fyrstu verða flokkarnir þrír og koma þeir til með að nýtist flestum. Flokkarnir eru: 1. í hjólastól án aðstoðar, 2. í hjólastól með aðstoð og 3. gönguhömlun.
Ferðamálastofa annast úttekt
Viðmiðin miðast við aðgengi að og um viðkomandi stað. Þau atriði sem tekin eru til skoðunar eru bílastæði, upplýsingar (skilti), stígar, pallar og hreinlætisaðstaða. Samhliða samantekt á viðmiðum um hvað sé ásættanlegt aðgengi var útbúinn ?Gátlisti? sem nýtist til úttektar á áningarstöðum. Áningarstaðir verða flokkaðir og niðurstöðunum komið á framfæri opinberlega þannig að við skipulag ferðalaga geti einstaklingar ákveðið hvaða staði skal heimsækja út frá aðgengi að þeim. Gátlistarnir ættu ennfremur að nýtast hönnuðum við skipulag og framkvæmdir. Ferðamálastofa mun sjá um úttekt á svæðum og koma upplýsingum um þau á framfæri.
Í framhaldi af þessum viðmiðum eru ofantaldir samstarfsaðilar að vinna að viðmiðum fyrir veitinga- og skemmtistaði, hótel og gististaði.