Samstarf við sveitarfélögin um mat og kortlagningu viðkomustaða
Ferðamálastofa hefur sent öllum sveitarfélögum á landinu bréf með ósk um samstarf um framhald verkefnis sem gengið hefur undir nafninu „Kortlagning auðlinda ferðaþjónustunnar“ eða kortlagning viðkomustaða. Fyrsti áfangi þess var unninn á árinu 2014, þar sem með aðstoð heimafólks voru metnir um 5.000 staðir um allt land. Komu um 350 manns um allt land að þessari vinnu sumarið 2014.
Tæki fyrir skipulasgvinnu
Megintilgangurinn var að skráningin gæti nýst sveitarfélögum og öðrum þeim sem koma að skipulagsmálum ferðaþjónustunnar og gera þannig tilraun til að greina á kerfisbundinn hátt hvar auðlindir ferðaþjónustunnar og tækifæri liggja til framtíðar. Um er að ræða viðamikið og metnaðarfullt verkefni sem vonandi getur nýst við þróun og uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu, bæði opinberum stofnunum og einkaaðilum, auk sveitarfélaganna.
Hvaða gögn urðu til?
Markmiðið var að kortleggja viðkomustaði þar sem upplifa mætti staðbundna og sérstaka eiginleika í náttúrufari eða menningu, þannig að staðirnir hefðu mögulegt aðdráttarafl fyrir ferðafólk. Af þeim 5.000 stöðum sem lagt var upp með standa eftir um 2.000 staðir sem metnir hafa verið með miðlungs aðdráttarafl eða meira, eins og það var skilgreint í verkefninu.
Vefsjá og niðurhal gagna
Þessa staði er bæði hægt að skoða á einfaldri vefsjá og hlaða gögnunum niður til notkunar í landupplýsingakerfum. Gögnin eru opin og notkun þeirra er öllum heimil. Í gögnum um hvern stað kemur fram í hvaða flokka upplifanir á staðnum falla (fjörur, fossar, gil og gljúfur, o.s.frv.) en einnig var lagt mat á aðgengi, aðstöðu á staðnum, skráðar ábendingar til ferðaþjónustuaðila og/eða gesta o.fl.
Gögnin og verkefnið í heild má nánar kynna sér á hér á vefnum á slóðinni www.ferdamalastofa.is/kortlagning
Greiðslur til sveitarfélaga
Til að vinna verkefnið áfram telur Ferðamálastofa vænlegra að leita nú eftir beinu samstarfi við hvert sveitarfélag þannig að tilnefndur verið af þess hálfu ábyrgur aðili til að fara yfir þau gögn sem enn eru til staðar en ekki hafa verið birt af ýmsum orsökum, ásamt því að koma með tillögur að nýjum stöðum. Ferðamálastofa mun greiða sveitarfélögum fyrir þá vinnu sem til fellur vegna þessa. Von Ferðamálastofu er að sveitarfélög sjái sér hag í því að koma að verkefninu með þessum hætti, þannig að hægt verði að auka gæði gagnanna. Hafa raunar mörg sveitarfélög þegar tilnefnt sína fulltrúa.
Nánari upplýsingar veitir Halldór Arinbjarnarson halldor@ferdamalastofa.is