Samstarfssamningur Ferðamálastofu og VisitScotland
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri og Riddell Graham, frá VisitScotland, skrifuðu undir samninginn. Með þeim á myndinni eru þær Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skota. Mynd: Auðunn Arnórsson .
Ferðamálastofa og ferðamálaráð Skotlands, VisitScotland, hafa skrifað undir samstarfssamning um að deila þekkingu og upplýsingum varðandi ýmsa þætti í uppbyggingu ferðaþjónustu. Ferðamálastofa hefur á liðnum árum átt í góðu samstarfi við VisitScotland, m.a. í tengslum við uppbyggingu Vakans, en áhugi var hjá báðum aðilum að ganga frá því með formlegri hætti.
Deila þekkingu og auka skilning
Markmið samstarfsins er að deila þekkingu og auka skilning beggja aðila á uppbyggingu, eðli og þróun atvinnugreinarinnar. Í samningnum er sérstaklega horft til nokkurra sviða, þ.e.
• Gæðamála
• Rannsókna
• Upplýsingagjöf til ferðamanna
• Þróun og sjálfbærni í ferðaþjónustu
• Þjónusta við kvikmyndaiðnaðinn
• Stafrænar lausnir
• Regluverk
Mikill akkur fyrir Ísland
Ferðamálastofa er afar ánægð með að þetta skref skuli hafa verið stigið. Bæði hefur samvinnan við VisitScotland gefið góða raun nú þegar og þá er verulegur akkur fólginn í því að tengjast jafn öflugum og virtum aðila. Mörg lönd hafa einmitt horft til Skotlands sem ákveðinnar fyrirmyndar í þróun og uppbyggingu ferðaþjónustu og því viðurkenning fyrir Ísland að Skotar skuli leita eftir samstarfi hingað.
Ánægja á báða bóga
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri og Riddell Graham, frá VisitScotland, skrifuðu undir samninginn að viðstöddum þeim Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Nicola Sturgeon, fyrsta ráðherra Skota.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði: „Ég er mjög ánægð með þetta samkomulag. Íslendingar og Skotar eru nágranna- og vinaþjóðir og öll samvinna milli okkar hefur verið góð. Það er mikilvægt hverju sinni að horfa til þeirra sem standa sig best og í þessu tilfelli var óþarfi að leita langt yfir skammt - enda Skotar mjög framarlega á þessu sviði og af þeim getum við margt lært. Og vonandi þeir af okkur líka,“
Fyrsti ráðherra Skota, Nicola Sturgeon sagði: "Skotland og Ísland eru heimsþekktir áfangastaðir og bæði löndin vilja þróa sjálfbæra ferðaþjónustu sem viðheldur áhuga og laðar að gesti. Nýjum, beinum flugtengingum milli þjóðanna var komið á fyrr á þessu ári og það er því vel við hæfi að VisitScotland og Ferðamálastofa dýpki samstarf sitt, aðilar læri meira hvor af öðrum og styrki upplifun ferðamanna í báðum löndunum á komandi árum."
Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri sagði: “Ferðaþjónusta á Íslandi hefur vaxið gífurlega síðust ár. Svo ör vöxtur hefur óhjákvæmilega í för með sér ögranir og verkefni sem takast þarf á við. Hjá skoskri ferðaþjónustu og Visit Scotland er reynslubrunnur sem við hjá Ferðamálastofu höfum getað sótt í og við trúum því að undirritun þessa samkomulags verði báðum þjóðunum til gæfu á komandi árum. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs innan líflegrar og blómstrandi atvinnugreinar.
Malcolm Roughead, forstjóri VisitScotland, sagði: "Bæði Scotland og Ísland eru lítil lönd sem vega mun þyngra meðal alþjóðlegra áfangastaða en vænta mætti miðað við stærð þeirra. Ferðaþjónustan er einn af lykilþáttum efnahagslífs bæði í Skotlandi og á Íslandi, greinin hefur verið efnahagsleg líflína fyrir þjóðir okkar á erfiðum tímum. VisitScotland og Ferðamálastofa hafa byggt upp sterk og mikilvæg tengsl á undanförnum þremur árum og það er spennandi að færa samstarfið á næsta stig með undirritun þessa samnings. "
Hefur vakið athygli í Bretlandi
Þetta nýja skref í samvinnu Íslands og Skotlands á sviði ferðamála hefur þegar vakið athygli í Bretlandi og verið fjallað um það í fjölmiðlum ytra. Hér að neðan eru tenglar í umfjöllun BBC og The Scotsman.