Sjálfboðaliðar björgunarsveita létu í té 15 þúsund vinnustundir á hálendinu
Sjálfboðaliðar björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar létu í té rúmlega 15 þúsund vinnustundir í aðstoð við ferðalanga á hálendinu í fyrrasumar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem gerð hefur verið um verkefnið Björgunarsveitir á hálendinu.
Í frétt frá Landsbjörgu kemur fram að undanfarin ár hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg unnið markvisst að því að bæta öryggi ferðalanga á hálendi Íslands en þar hafa árlega orðið alvarleg slys og mannslát. Ferðamannastraumur á hálendinu hefur aukist mikið og vekur athygli hversu margir eru á vanbúnum bílum og almennt illa búnir til hálendisferða. Sumarið 2006 ákvað félagið að efla slysavarnir á hálendinu og virkja til þess sjálfboðaliða björgunarsveita og slysavarnadeilda. Farið var af stað með verkefnið Björgunarsveitir á hálendinu sem felst í því að í sjö vikur á hverju sumri eru fjórar björgunarsveitir staðsettar á hálendinu, ferðafólki til leiðbeiningar og aðstoðar ef eitthvað kemur upp á.
Þrátt fyrir að verkefnið Björgunarsveitir á hálendinu sé eingöngu mannað sjálfboðaliðum er það afar kostnaðarsamt og leggst megnið af þeim kostnaði á björgunarsveitirnar og Slysavarnafélagið Landsbjörg. N1, Vodafone og Íslenska gámafélagið styrktu þó verkefnið með ýmsum hætti og kann félagið þeim bestu þakkir fyrir.
Sl. sumar tóku 20 björgunarsveitir þátt en 133 einstaklingar sinntu upplýsingagjöf og aðstoð við ferðafólk fyrir þeirra hönd. Gríðarlega margar vinnustundir liggja að baki verkefni þessu en reiknaðar vinnustundir eru rúmlega 15.000 talsins. Í þessum tölum er þó bara tekið vinnuframlag þeirra sem voru á hálendinu en að auki liggja ófáar vinnustundir að baki við undirbúning, námskeiðshald og fleira. Eknir kílómetrar björgunarsveitanna í verkefninu voru 52.471.
Skráðar aðstoðarbeiðnir til björgunarsveita voru 349 og hefur þeim fjölgað nokkuð mili ára. Nokkuð vantar þó upp á að leiðbeiningar og upplýsingar til ferðamanna séu skráðar, en forvarnir með þeim hætti má koma í veg fyrir mörg óhöpp og slys sem annars gætu orðið vegna vanþekkingar á aðstæðum. Þarna eru sveitir að gefa upplýsingar um aðstæður, færð, veður og útbúnað. Fyrir utan fræðslu og leiðbeiningar voru helstu verkefni að veita slösuðum og veikum fyrstu hjálp, draga upp bíla upp úr ám, leiðbeina með akstur yfir ár, ferja gangandi vegfarendur yfir ár, viðgerðir á bílum, sinna útköllum er berast frá Neyðarlínunni, afskipti af utanvegaakstri og aðstoð með eldsneyti á bíla. Einnig liðsinntu þær skála- og landvörðum með ýmis tilfallandi verkefni.
Skýrslan Björgunarsveitir á hálendinu 2008 (PDF)
Nánari upplýsingar gefur Sigrún A. Þorsteinsdóttir, sviðstjóri slysvarnasviðs SL, í síma 862 7003 og Gunnar Stefánsson, sviðsstjóri björgunarsviðs SL í síma 840 2500.