Skemmtiferðaskipin byrjuð að koma
Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom til Akureyrar í morgun en í hugum margra bæjarbúa er það endanleg staðfesting þess að sumarið sé komið á fullt skrið. Veruleg aukning hefur orðið í komum skemmtiferðskipa hingað til lands á síðustu árum og tekjur vegna þeirra aukist að sama skapi.
Síðastliðin 10 ár hafa hafnirnar í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði, ásamt skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Bandaríkjunum, staðið fyrir árangursríku markaðssamstarfi erlendis sem miðar að fjölgun í komum skemmtiferðaskipa. Hefur farþegafjöldinn á þessum tíma aukist úr 22 þúsund farþegum á ári í 53 þúsund farþega og skipakomum til hafnanna þriggja fjölgað úr 51 á ári í rúmlega 100. Í fyrra var talið að heildartekjur vegna komu farþega og skipa til Íslands hafi verið um einn miljarður króna.
Í skýrslu sem hafnirnar létu vinna fyrir sig sl. vetur um stöðu Íslands sem viðkomustaðar fyrir skemmtiferðaskip kemur fram að mögulegt sé að tvöfalda farþegafjölda með skemmtiferðaskipum til landsins fram til ársins 2010. Að mati skýrsluhöfundar á Ísland mikla framtíð fyrir sér sem ákjósanlegur viðkomustaður fyrir farþega skemmtiferðaskipa. Mikill vöxtur er í þessum þætti iðnaðarins í heiminum og skapast Íslandi þar fjölmörg tækifæri. Skýrslan leggur sérstaka áherslu á sterka stöðu Íslands fyrir náttúru og ævintýraferðir af ýmsum toga. Sérstaðan fellst m.a. í því að skoða hina stórbrotnu náttúrufegurð landsins frá sjó og jafnframt að geta upplifað náttúruna sem víðast á landi.