Skip með farþegaleyfi Siglingastofnunar Íslands
Samkvæmt lögum um eftirlit með skipum eru farþegaflutningar í atvinnuskyni, þar með taldar skoðunar- og veiðiferðir ferðamanna, háðir leyfi Siglingastofnunar Íslands.
Í frétt á vef Siglingastofnunar kemur fram að leyfi til farþegaflutninga er gefið út þegar leitt er í ljós að fullnægt er ákvæðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim, svo og ákvæðum annarra laga og reglugerða sem gilda um skip í farþegaflutningum. Fyrir slík skip skal fjöldi í hverri áhöfn ákveðinn af Siglingastofnun Íslands með hliðsjón af gerð skips, fyrirkomulagi þess og búnaði, svo og farsviði þess og útivist, þannig að fjöldi í áhöfn og skipting starfa fullnægi skilyrðum um að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi farþega, skipverja og skips. Skipstjóri skal varðveita um borð í skipi skjal er sannar gildi leyfisins.
Á vef stofnunarinnar má nálgast lista yfir skip sem hafa farþegaleyfi. Þar er jafnframt að finna upplýsingar um þau lög og þær reglugerðir sem þarf að uppfylla, ásamt umsóknareyðublaði. Á listanum koma fram upplýsingar um nafn skips, skipaskrárnúmer, gildistími leyfis, farsvið, öryggismönnun og hámarksfjöldi farþega. Nánar á vef Siglingastofnunar
Mynd: Haukur, skip Norðursiglingar á Húsavík, siglir seglum þöndum á Skjálfandaflóa.
Mynd af vef Norðursiglingar.