Fara í efni

Skipurit Ferðamálaráðs Íslands

Á fundi Ferðamálaráðs fyrr í vikunni voru samþykktar skipulagsbreytingar og skipurit fyrir stofnunina. Starfseminni er formlega skipt upp í þrjú svið og þannig stofnað nýtt svið, markaðssvið. Undir það munu heyra öll markaðsmál, jafnt innlend sem erlend. Hið nýja skipulag tekur gildi 1. febrúar nk.

Eins og fram hefur komið rennur samningur um Markaðsráð ferðaþjónustunnar út nú í árslok eftir fjögurra ára gildistíma. Í því ljósi beindi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, því til Ferðamálaráðs að þessi lögbundni málaflokkur stofnunarinnar, þ.e. markaðs- og kynningarmál, yrði efldur á næstunni. Á það bæði við um innlenda og erlenda markaðsvinnu. Til að styrkja enn frekar markaðsþáttinn í starfsemi Ferðamálaráðs við þessar aðstæður mæltist samgönguráðherra til þess að gerðar yrðu ákveðnar skipulagsbreytingar á starfsemi stofnunarinnar.

Þrjú svið
Til að verða við tilmælum ráðherra, og jafnframt til að gera Ferðamálaráð enn betur í stakk búið til að sinna verkefnum sínum, var unnið skipurit fyrir stofnunina þar sem starfseminni er skipt upp í þrjú svið. Með því er leitast við að gera verkefni ráðsins skilvirkari og línur á milli mismunandi málaflokka stofnunarinnar skýrari. Segja má að hér sé verið að festa á blað í aðalatriðum það verklag sem unnið hefur verið eftir í stofnuninn en með samþykki ráðsins hefur það verið formlega staðfest. Þannig verði rennt styrkari stoðum undir núverandi starfsemi Ferðamálaráðs, auknar áherslur lagðar á meginmálaflokka og búið í haginn fyrir nýja.

Markaðssvið
Landkynningar- og markaðsmál verði styrkt með stofnun á nýju markaðssviði. Öll markaðsmál, jafnt innlend sem erlend, munu heyra undir sviðið, þ.á.m. kynningarskrifstofur Ferðamálaráðs í New York, Frankfurt og fyrirhuguð skrifstofa í Kaupmannahöfn. Forstöðumaður markaðssviðs verður jafnframt staðgengill ferðamálastjóra.

Upplýsinga- og þróunarsvið
Núverandi starfsemi á Akureyri fær nafnið upplýsinga- og þróunarsvið. Meðal verkefna eru upplýsingamál, gerð gagnagrunns, umhverfismál, fræðslumál, vefþróun og -viðhald, rannsóknir, flokkun gististaða o.fl.

Rekstrar- og stjórnsýslusvið
Þriðja sviðið er síðan rekstrar- og stjórnsýslusvið og þar er ferðamálastjóri jafnframt forstöðumaður. Undir sviðið heyra m.a. rekstur og fjármál, skipulag og áætlanagerð, lögbundin stjórnsýsluverkefni, umsjón með samningagerð, kannanir, leyfismál, fjölþjóðlegt samstarf o.fl. Nýtt skipulag tekur sem fyrr segir gildi frá og með 1. febrúar 2003.