Skýra þarf hlutverk og verkefni Ferðamálastofu
Könnun meðal aðila í ferðaþjónustu gefur í heild jákvæða mynd af starfsemi Ferðamálastofu, segir í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi stofnunarinnar. Meginniðurstaðan er að skýra þarf hlutverk og verkefni stofnunarinnar.
Veitir góða þjónustu
Viðhorfskönnun Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að meirihluti hagsmunaaðila í ferðaþjónustu telja samskipti sín við Ferðamálastofu almennt góð og að stofnunin veiti þeim góða þjónustu. Þá bera hagsmunaaðilar almennt traust til stofnunarinnar og telja hana hafa faglegan metnað. Að mati Ríkisendurskoðunar gefur könnunin skýra vísbendingu um að Ferðamálastofa sinni verkefnum sínum með árangursríkum hætti.
Þannig töldu 82% svarenda að samskipti sín við Ferðamálastofu væru mjög eða frekar góð og nokkrir komu á framfæri hóli og upplýsingum um góð samskipti við einstaka starfsmenn hennar. Þetta má nánar sjá á mynd 3.4 hér að neðan sem tekin er úr skýrslunni.
Efla stjórnsýsluhlutverk
Ríkisendurskoðun telur að hlutverk Ferðamálastofu skarist við hlutverk þriggja annarra ríkisstofnana. Meðal annars er bent á að tvær stofnanir sinni markaðssetningu ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa innanlands en Íslandsstofa erlendis. Ríkisendurskoðun telur að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið þurfi að skýra stöðu stofnana sem tengjast málaflokknum og afmarka verkefni og ábyrgð þeirra betur en nú. Þá þurfi að skýra hlutverk og verkefni Ferðamálstofu, kostnaðargreina verkefni hennar og beita sér fyrir því að þeim fylgi nægilegt fjármagn. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að kanna möguleika á því að flytja markaðsmál alfarið frá Ferðamálastofu og efla þess í stað stjórnsýsluhlutverk stofnunarinnar og verkefni hennar á sviði gæða-, skipulags- og öryggismála ferðaþjónustu.
Kanna heimild á beitingu viðurlaga
Ferðamálastofu ber að hafa eftirlit með því að aðilar í ferðaþjónustu hafi tilskilin leyfi, uppfylli skilyrði þeirra og fari að lögum. Hins vegar hefur stofnunin ekki heimildir til að beita viðurlögum vegna brota, s.s. dagsektum. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að kanna hvort heimila eigi Ferðamálastofu að beita slíkum viðurlögum til að styrkja eftirlitshlutverk hennar.
Starfsemi Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða
Ferðamálastofa hefur umsjón með rekstri Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sem á að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða. Stofnunin og stjórn sjóðsins hafa ekki náð samkomulagi um verkaskiptingu og ábyrgð Ferðamálastofu hvað varðar starfsemi sjóðsins. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að höggva á þann hnút. Ráðuneytið vinnur að gerð starfsreglna fyrir sjóðinn og hvetur Ríkisendurskoðun það til að flýta þeirri vinnu eins og kostur er.
Ábendingar um innra skipulag
Í skýrslunni eru enn fremur ýmsar ábendingar er varða stjórnun og innra skipulag Ferðamálastofu. Meðal annars er stofnunin hvött til að styrkja mannauðsstjórnun sína, ljúka gerð verklagsrelgna fyrir meginþætti starfseminnar, setja sér nýtt skipurit og bæta yfirsýn um fjárhagsstöðu Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Þá er í skýrslunni ábending til fjármála- og efnahagsráðuneytisins er varðar fyrirkomulag fjárveitinga til stofnunarinnar.