Skýrsla Hagfræðistofnunar um áhrif gengis á ferðaþjónustu
Í ljósi mikillar umræðu um gengismál og áhrif gengis á ferðaþjónustuna fól Sturla Böðvarsson samgönguráðherra Ferðamálastofu að láta meta stöðu greinarinnar. Í framhaldinu óskaði Magnús Oddsson ferðamálastjóri eftir að Hagfræðistofnun kannaði áhrif raungengis á ferðaþjónustu hér á landi, almennt og á einstaka þætti hennar. Nú liggur skýrsla Hagfræðistofnunar fyrir. Er hún viðamikil og víða komið við.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti skýrsluna á aðalfundi SAF fyrr í dag. Hér að neðan er útdráttur hvað varðar nokkrar niðurstöður. Jafnframt eru tenglar í sjálfa skýrsluna og ræðu ráðherra.
Áhrif breytinga á raungengi á ferðamannastraum
Í skýrslunni er sjónum einkum beint að þeim áhrifum sem breytingar á raungengi hafa á ferðamannastraum til og frá landinu. Hátt raungengi getur dregið úr ásókn útlendinga til landsins, haft áhrif á eyðslu þeirra og viðveru, en jafnframt dregið úr áhuga Íslendinga á að ferðast um eigið land. Breytingar á gengi hafa einnig áhrif á afkomu þeirra fyrirtækja sem hafa tekjur og kostnað í erlendri mynt. Loks hafa breytingar á nafngengi einnig áhrif á almennt verðlag og kauplag í landinu, þótt nokkurn tíma taki fyrir þau áhrif að skila sér að fullu.
Skýrir aðeins lítinn hluta
Til að kanna hvernig breytingar á raungegni koma niður á komu ferðamanna til landsins var hér notað líkan þar sem breytingar á fjölda ferðamanna voru látnar ráðast af breytingum á raungengi, olíuverði og landsframleiðslu í heimalandi útlendinganna.
Niðurstöður gefa til kynna að þessar þrjár breytur ? breytingar í raungengi, olíuverði og landsframleiðslu viðkomandi ferðamanna ? skýri einungis lítinn hluta af þeim breytingum sem orðið hafa á komum erlendra ferðamanna á tímabilinu 1982-2004. Skýringarhlutfallið er 20%, en það þýðir að fjórir fimmtu hlutar af breytileika í fjölgun ferðamanna eru óskýrðir. Í skýrslunni eru nefndir sem áhrifavaldar hvað varðar hin óskýrðu 80% áhrif á fjölda erlendra gesta: almenn landkynning, markaðsvinna, aukið framboð af ódýrum flugferðum og meira gistirými.
Í ljós kom að breyting á raungengi á viðkomandi ári hafði tölfræðilega ómarktæk áhrif á breytingar á fjölda ferðamanna. Aftur á móti reyndist raungengi krónunnar árið á undan hafa marktæk áhrif, sem og breyting á olíuverði og breyting á landsframleiðslu þess lands sem ferðamennirnir komu frá. Þetta kemur nokkuð á óvart því að komið hefur fram ákveða flestir útlendingar ferðir sínar hingað með tiltölulega stuttum fyrirvara.
Tölfræðilegar athuganir gefa til kynna hækkun raungengis krónunnar ýti undir ferðalög Íslendinga til útlanda.
Þá gefa tölfræðilíkön til kynna að hátt raungengi ýti undir eyðslu ferðamanna á Íslandi, mældri í erlendum gjaldeyri.
Gengislækkun hefði áhrif á kostnað
Gera má ráð fyrir að um 45% af tekjum fyrirtækja í ferðaþjónustu á Íslandi verði til í erlendri mynt, en einungis 25% kostnaðar. Misvægið nemur því um 20% af tekjum. Skýrsluhöfundar benda á í þessu sambandi að sumir ferðaþjónustuaðilar segist ekki hafa mikinn annan erlendan kostnað en gjöld vegna lántöku. Á undanförnum árum hefur víða í ferðaþjónustu verið ráðist í töluverðar fjárfestingar og margar þeirra eru fjármagnaðar að hluta eða öllu leyti með lántöku í erlendri mynt. Fjármagnskostnaður vegna þess mun því aukast ef gengi íslensku krónunnar lækkar.
Í þessu sambandi er bent á að vegna þess hve Ísland er opið hagkerfi hafa breytingar á gengi krónunnar áhrif á almennt verðlag í landinu, en nokkur tími getur liðið þar til þau áhrif koma að fullu fram. Þess vegna mun gengislækkun hafa áhrif á öll fyrirtæki í ferðaþjónustu sem öðrum atvinnugreinum, þar sem lækkunin hefur áhrif á verð á almennri vöru og þjónustu og seinna meir einnig kauplag.
Breytilegt eftir fyrirtækjum
Hvað varðar tekjur og gjöld í erlendum myntum er hlutfallið mjög breytilegt eftir fyrirtækjum og segir í skýrslunni að sérstök ástæða sé til að staldra við þá stöðu sem innlendar ferðaskrifstofur og flugfélög eru í. Um 90% af tekjum innlendra ferðaskrifstofa verður til við sölu á ferðum og þjónustu til erlendra aðila sem greiða oftast fyrir í evrum. Á móti kemur að einungis um þriðjungur kostnaðar þessara aðila er í erlendum gjaldeyri. Um tveir þriðju hlutar tekna íslenskra flugfélaga verður til í erlendri mynt en 35-45% af kostnaðinum. Hjá hótelum og minni þjónustuaðilum er mun betra samræmi á milli þess hluta tekna og kostnaðar sem er í erlendum gjaldmiðli, þótt vitaskuld megi ætíð finna einstaka fyrirtæki þar sem misvægið er meira. Ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni eru flest í hópi smærri fyrirtækja í þessari atvinnugrein og því er trúlegt að þau séu yfirleitt þokkalega vel varin fyrir gengisáhættu.
Viðbrögð ferðaþjónustufyrirtækja
Smærri fyrirtæki virðast í auknum mæli hafa reynt að varpa gengisáhættu sinni yfir á fyrirtæki sem eru nær neytendum í sölukeðjunni. Lítil ferðaþjónustufyrirtæki hafa selt þjónustu í krónum til innlendra ferðaskrifstofa sem síðan hafa selt hana áfram í erlendum gjaldmiðli til erlendra ferðaskrifstofa eða beint til ferðamanna. Þá hafa minni fyrirtæki einnig reynt að færa verðlagningu sína úr erlendum gjaldmiðli í krónur. Slík verðstefna getur vissulega fælt viðskiptavini frá en ef breytingar á nafngengi eru miklar getur hún þó borgað sig. Sum fyrirtæki virðast einnig hafa snúið sér í auknum mæli að innlenda markaðnum. Það getur reynst varhugavert vegna þess að þá er hætta á að erlend viðskiptasambönd tapist. Þegar gengi krónunnar veikist aftur getur reynst tvíbent að hafa snúið baki við erlenda markaðnum.
Fall krónunnar ekki til hagsbóta fyrir ferðaþjónustuna
Ferðaþjónusta á Íslandi myndi ekki njóta mikils góðs af því að krónan félli og verðlag hækkaði hér að sama skapi, segir í lokaniðurstöðum Hagfræðistofnunar í umræddri skýrslu.