Skýrsla nefndar um ímynd Íslands
Nefnd sem forsætisráðherra skipaði um ímynd Íslands í nóvember 2007 skilaði skýrslu sinni í gær. Verkefni nefndarinnar var að gera úttekt á skipan ímyndarmála Íslands í dag, móta stefnu Íslands í þessum málaflokki og leggja fram tillögur að skipulagi ímyndarmála og aðgerðum til að styrkja ímynd Íslands.
Helstu niðurstöður
Helstu niðurstöður nefndarinnar er þær að ímynd Íslands er almennt jákvæð en veikburða og smá erlendis og byggir fyrst og fremst á upplifun af náttúru en ekki af þjóð, menningu eða atvinnustarfsemi. Nefndin leggur því til að ímyndaruppbygging Íslands miði að því að skapa jákvæða og sterka ímynd ekki bara af náttúru landsins heldur einnig af fólki, atvinnulífi og menningu.
Viðamikil könnun á skoðunum Íslendinga leiddi í ljós að Íslendingar af báðum kynjum, á öllum aldri og úr ólíkum starfsstéttum voru almennt sammála um að kraftur og frelsi einkenndu jafnt fólk, atvinnulíf, menningu sem og náttúru landsins. Auk þess var það almennt mat að friður og öryggi væru verðmæt einkenni á íslensku samfélagi. Nefndin leggur því til að kjarninn í ímynd Íslands sé kraftur, frelsi og friður og að náttúrulegur kraftur sé sérkenni Íslands enda telja Íslendingar sig almennt vera duglega, bjartsýna og áræðna og að náttúrulegur kraftur og frumkvæði einkenni atvinnulíf og menningu landsins.
Nefndin bendir á að núverandi fyrirkomulag ímyndarmála sé óskýrt og óskilvirkt enda komi mjög margir aðilar að þessum málum án þess að hafa um þau samstarf. Því leggur nefndin til að núverandi fyrirkomulag verði endurskipulagt og einfaldað og að komið verði á fót vettvangi, Promote Iceland, sem setji skýran ramma utan um ímyndar- og kynningarmál Íslands. Þar komi til samstarfs við hið opinbera aðilar í útflutningi, ferðaþjónustu, fjármálastarfsemi, menningarlífi og þekkingariðnaði. Með þessu móti yrði miklu auðveldara að móta og styrkja ímynd sem byggðist á samhæfðum skilaboðum og sameiginlegu merki og tengdi saman kynningarþáttinn í starfsemi stofnana eins og t.d. Útflutningsráðs, Fjárfestingarstofu, Ferðamálastofu og utanríkisþjónustunnar. Vettvangnum yrði ætlað að safna og halda utan um ýmis konar upplýsingar um Ísland sem m.a. þessir aðilar gætu sótt í.
Skoða skýrsluna - (PDF 4 MB)