Skýrsla um íslenskar tónlistarhátíðir
Út er komin skýrsla þar sem úttekt er gerð á íslenskum tónlistarhátíðum og möguleikum þeirra til frekari þróunar. Skýrslan byggir á niðurstöðum úttektar sem unnin var í samstarfi ÚTÓN og Ferðamálastofu.
Meta styrkleika og veikleika
Tómas Young hafði umsjón með verkefninu og er jafnframt höfundur skýrslunnar. Verkefnið miðaði að því að kortleggja íslenskar tónlistarhátíðir og meta styrkleika þeirra og veikleika, en liður í þeirri kortlagningu var könnun meðal forsvarsmanna íslenskra tónlistarhátíða. Í könnuninni var leitast við að varpa ljósi á rekstur hátíðanna, auk þess sem kallað var eftir mati á hugsanlegu samstarfi milli tónlistarhátíða hér á landi.
Aðdráttarafl fyrir ferðamenn
Á Íslandi eru starfræktar margar góðar tónlistarhátíðir sem eiga kost á því að þróast og verða aðdráttarafl fyrir innlenda sem erlenda ferðamenn. Það er margreynt að tónlistarhátíðir um allan heim laða að fólk hvaðanæva af og hafa jákvæð efnahagsleg áhrif á hagkerfi viðkomandi staða eða svæða.
Aldrei fór ég suður á Ísafirði, Eistnaflug á Egilsstöðum, Þjóðlagahátíð á Siglufirði, Myrkir Músíkdagar, Jazzhátíð Reykjavíkur og Iceland Airwaves eru aðeins nokkrar af mörgum frambærilegum tónlistarhátíðum hér á landi. Margar hátíðirnar eiga það sameiginlegt að vera reknar meira og minna í sjálfboðaliðastarfi eða með mjög fáu starfsfólki sem bitnar á kynningarþættinum í kringum þær og vöruþróunarvinnu.
Hagkvæmni með auknu samstarfi
Margar þeirra hátíða sem hér er fjallað um eiga möguleika á að þróast áfram og eflast. Líklegt er að hægt sé að finna hagkvæmar lausnir með auknu samstarfi og samnýtingu á fólki, þekkingu og reynslu. Kanna þarf hvaða hátíðir eru tilbúnar í frekari vöruþróun og hvernig best er hægt að aðstoða þær um leið og skoðað er hvaða reynsla og þekking er til hjá mismunandi aðilum.
Með þetta að leiðarljósi lagði ÚTÓN til við Ferðamálastofu að farið yrði í athugun, greiningarvinnu og tillagnagerð á þessu sviði. Niðurstaðan var samstarfssamningur sem var undirritaður í maí 2012 og er skýrsla þessi útkoma samstarfsins.