Fara í efni

Snjallleiðsagnir á Austurlandi

Snjallleiðsögn Austurland
Snjallleiðsögn Austurland

Nýjar ferðir á Austurlandi með snjalllleiðsögnum eru fáanlegar í forritinu SmartGuide North Atlantic í vefverslunum Apple og Google. Alls eru sex ferðir í boði þar sem þaulkunnir sögumenn leiða íslenska og erlenda ferðamenn um slóðir sínar.

Um er að ræða nýtt smáforrit (app) í snjallsíma og spjaldtölvur sem gefið út af Locatify í samstarfi við Félag áhugamanna um söguslóðir Hrafnkelssögu, Gunnarsstofnun og fleiri aðila, og styrkt af AVS (Rannsóknarsjóði í sjávarútvegi) og Vaxtarsamningi Austurlands.

Ný leið til að ferðast
Forritinu er hlaðið niður í iPhone og Android snjallsíma eða iPads spjaldtölvur áður en haldið er af stað. Forritið notar GPS tækni og fer sjálfkrafa í gang á réttum stöðum og segir frá því sem er í umhverfinu þannig að notandinn nýtur persónulegrar leiðsagnar líkt og sögumaður væri með í för. Einnig er hægt að njóta þess sem gagnvirkrar ferðabókar með því að fletta myndum og hlusta á frásagnir heima í stofu. 

Með snjallleiðsögn er boðið uppá nýja þjónustu við ferðamenn sem eykur þekkingu og skilning á sérstöðu hvers svæðis.  Menningar-og náttúruarfleifð er kynnt af sagnaþulum og leiðsögumönnum á íslensku sem Neil Machon þýddi síðan og staðfærði fyrir enskumælandi ferðamenn.

Litli Fljótsdalshringurinn
Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, leiðir ferðamenn Litla Fljótsdalshringinn. Ferðamaðurinn getur notið þess að keyra um Fljótsdalinn á meðan hann hlustar á sögur af staðháttum, fólki, álfum, trjám og fornköppum á Fljótsdalshéraði.

Stóri Fljótsdalshringurinn
Arndís Þorvaldsdóttir skjalavörður er leiðsögumaður sem segir á lifandi hátt sögur af fólki og umhverfi Lagarfljóts. Arndís veitir innsýn í hugarheim fólks í fortíð og nútíð,  tvinnar saman þjóðsögur og sögur úr nútímanum og tengir þær þeim stöðum sem eru heimsóttir.

Jökuldalur
Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri, sagnaþulur og Austfirðingagoði segir frá upplifunum sínum og kynlegum kvistum á Jökuldal. Hlýtt er á frásagnir um skólagöngu, landsfrægar persónur og heiðna staðhætti um leið og sögustaðir eru heimsóttir.

Hrafnkelsdalur
Bræðurnir Baldur og Páll Pálssynir frá Aðalbóli segja frá Hrafnkelssögu og uppvextinum í Hrafnkelsdal. Með þeim er einn afskekktasti dalur landsins kannaður þar sem frægasta Íslendingasaga Austfirðinga gerðist.
Eskifjörður
Þórhallur Þorvaldsson, sagnamaður og kennari á Eskifirði, er margfróður um fæðingarstað sinn. Gengið er um plássið með Þórhalli og húsin og fólkið sem byggði Eskifjörð lifna við í hugskotum hlustenda.

Fjarðahringurinn
Hulda Guðnadóttir er kennari á Reyðarfirði á veturna og leiðsögumaður á sumrin. Í  hringferð um Austfirði og Hérað segir hún frá fólki, fyrirbærum og náttúru Austurlands.

Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir, steinunn@locatify.com   sími: 699-4320
Skúli Björn Gunnarsson, skuli@skriðuklaustur.is   sími: 860-2985 eða  471-2990