Spjallmennið Sóley mætt til leiks
Síðustu vikur hefur Ferðamálastofa unnið að innleiðingu á spjallmenni (e. Chatbot eða virtual assistant) sem veitir svör um þjónustu Ferðamálstofu og fleira er varðar ferðamál. Markmiðið er aukin og betri þjónusta við þá sem til stofnunarinnar leita.
Þessi rafræni aðstoðarmaður hefur hlotið nafnið Sóley, eftir þjóðarblóminu, og getur hún veitt upplýsingar og ýmsa aðstoð í gegnum textaspjall allan sólarhringinn, alla daga ársins.
Launsin sem um ræðir er þróuð af norska fyrirtækinu Boost.ai en innleiðingin var unnin með Advania, sem er samstarfsaðili Boost.ai á Íslandi. Byggt er á samspili fyrirfram skráðra svara og gervigreindar með það fyrir augum að halda uppi sem eðlilegustu samtali við viðskiptavini og skilja þarfir þeirra.
Innleiðing þessa rafræna aðstoðarmanns er liður í áherslu Ferðamálastofu á nýtingu sjálfvirkni og stafrænna lausna á sem flestum sviðum, til að bæta þjónustu og auka skilvirkni í starfseminni.
Til að spjalla við Sóleyju er hægt að smella á "spjallbóluna" hér neðst í hægra horninu.