Starfsstöðin á Akureyri flutt í Hafnarstræti 91
Starfsstöð Ferðamálastofu á Akureyri hefur flutt úr Strandgötu 29 í Hafnarstræti 91 (KEA-húsið) og er þar upp á 4. hæð.
Meiri þjónusta á einum stað
Ferðamálastofa er í góðum félagsskap í húsinu þar sem samhliða flytja þangað fleiri aðilar úr stoðkerfi atvinnulífsins. Eitt af markmiðum breytinganna er einmitt að efla stuðning við atvinnulífið með því að safna þjónustu saman á einn stað. Hér er um að ræða Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Markaðsstofu Norðurlands, EYÞING-samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og Menningarráð EYÞINGS. Þá er þeim möguleika haldið opnum að fleiri gætu bæst við síðar.
Inngangur úr Kaupvangsstræti
Ferðamálastofa er til húsa á 4. hæð í þessu sögufræga húsi í hjarta Akureyrar, á horni Hafnarstrætis og Kaupvangsstrætis. Gengið er inn úr Kaupvangsstræti, beint á móti Hótel KEA. Húsnæðið var reist árið 1930 fyrir Kaupfélag Eyfirðinga, KEA, sem hafði höfuðstöðvar sínar í húsinu í 76 ár eða til ársins 2006.