Fara í efni

Stefnir í 320 þúsund ferðamenn í ár

-22% fjölgun erlendra ferðamanna í nóvember

Niðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs Íslands á ferðamönnum sem fara um Leifsstöð sýna að nýliðinn nóvembermánuður skilaði, líkt og aðrir mánuðir ársins, verulega fleiri erlendum ferðamönnum en í fyrra. Aukningin á milli ára nemur rúmum 22%. Verði áframhaldandi aukning í desember með sama hætti stefnir í að ferðamenn verði um 320.000 í ár, sem þar með væri orðið metár í íslenskri ferðaþjónustu.

Talningar Ferðamálaráðs sýna að 15.136 erlendir ferðamenn fóru um Leifsstöð í nóvember nú en þeir voru 12.404 í sama tímabili í fyrra. Sé litið til stærstu markaða okkar þá er aukning frá þeim öllum. Fróðlegt er að sjá hversu Bandaríkjamarkaður hefur styrkst og sýnir tæplega 17% aukningu á milli ára. Norðurlöndin og Bretland eru þau lönd sem skila stærstum hluta fjölgunarinnar, Þýskaland og Suður-Evrópa halda áfram með góða aukningu og betri samgöngur við Japan skila mikilli aukningu þaðan.

Til þessa er árið 2000 með flesta ferðamenn á einu ári, 302.900 talsins. Frá áramótum hafa rúmlega 296.000 erlendir ferðamenn farið um Leifsstöð og þá er eftir að bæta við þeim sem fara um aðra millilandaflugvelli og farþegum Norrænu. Því er nokkuð ljóst að árið 2003 verður metár í fjölda gesta hingað til lands.

Samanburðarhæfar tölur
Talningar Ferðamálaráðs hafa staðið yfir frá því í febrúar 2002 og því liggja nú fyrir samanburðarhæfar niðurstöður fyrir tímabilið mars til nóvember fyrir árin 2002 og 2003. Sé þetta tímabil borið saman á milli ára kemur í ljós að erlendir ferðamenn í ár eru 13.75% fleiri en í fyrra. Er aukningin frá öllum löndum sem mæld eru sérstaklega og nemur samtals tæplega 33 þúsund gestum. Af þeim eru stærstu hóparnir frá Bretlandi og Þýskalandi.

Athyglisverðar niðurstöður
Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, segir afar áhugavert að sjá þá viðvarandi aukningu sem orðið hefur á komum erlendra ferðamanna og fernt standi uppúr í sínum huga. "Í fyrsta lagi hefur okkur, á undan öðrum Evrópuþjóðum, tekist að snúa við fækkun ferðamanna á frá Bandaríkjunum. Í öðru lagi er það aukningin frá Danmörku og Bretlandi, sem annars vegar skýrist að mínu mati af góðri markaðssetningu og hins vegar af tilkomu Iceland Express. Í þriðja lagi er vert að veita athygli mikilli aukningu frá Evrópu, bæði frá Þýskalandi og ekki síður löndum sunnar í álfunni. Loks er gaman að sjá að Asía er að koma sterkt inn og verður fróðlegt að sjá þróunina þaðan á næsta ári með bættum samgöngum," segir Ársæll.

Í töflunum hér að neðan má annars vegar sjá samanburð á milli nóvembermánaðar 2002 og 2003 og hins vegar samanburð á tímabilinu mars-nóvember í ár og í fyrra. Heildarniðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs má nálgast með því að opna meðfylgjandi Excel-skjal.

Fjöldi ferðamanna í nóvember*
  2002 2003 Mismunur %
Bandaríkin 2.384 2.779 395 16,57%
Bretland 2.780 3.363 583 20,97%
Danmörk 1.155 1.349 194 16,80%
Finnland 296 270 -26 -8,78%
Frakkland 530 288 -242 -45,66%
Holland 385 391 6 1,56%
Ítalía 129 166 37 28,68%
Japan 93 213 120 129,03%
Kanada 118 101 -17 -14,41%
Noregur 1.349 1.703 354 26,24%
Spánn 56 68 12 21,43%
Sviss 56 50 -6 -10,71%
Svíþjóð 1.410 1.812 402 28,51%
Þýskaland 503 608 105 20,87%
Önnur þjóðerni 1.162 1.975 813 69,97%
Samtals: 12,406 15,136 2.730 22,01%
Ísland 18.369 15.136 2.730 22,01%
Heimild: Ferðamálaráð Íslands, brottfarir erlendra ferðamanna í Leifsstöð.
*Hér eru ekki taldir með farþegar sem fara um aðra millilandaflugvelli en Keflavík.

 

Mars - nóvember 2002 og 2003*
  2002 2003 Mism. %
Bandaríkin 38.242 38.664 402 1,05%
Bretland 37.093 43.955 6.862 18,50%
Danmörk 17.788 21.554 3.766 21,17%
Finnland 5.465 6.295 830 15,19%
Frakkland 16.990 18.746 1.756 10,34%
Holland 8.699 9.598 899 10,33%
Ítalía 7.175 8.392 1.217 10,33%
Japan 2.711 3.567 856 31,58%
Kanada 1.946 2.216 270 13,87%
Noregur 18.807 20.716 1.909 10,15%
Spánn 3.538 4.813 1.275 36,04%
Sviss 5.440 5.861 421 7,74%
Svíþjóð 19.875 21.994 2.119 10,66%
Þýskaland 28.432 34.538 6.106 21,48%
Önnur þjóðerni 25.787 29.825 4.038 15,66%
Samtals: 237.988 270.825 4.038 13,75%
Ísland 177.141 242.072 64.931 36,65%