Sturla Böðvarsson kveður ráðuneyti ferðamála
Við ríkisstjórnarskiptin í dag hverfur Sturla Böðvarsson úr stóli ráðherra ferðamála en því embætti hefur hann gegnt í átta ár. Ferðamálastofa þakkar Sturlu fyrir árangursríkt og farsælt samstarf þennan tíma varðandi uppbyggingu og eflingu íslenskrar ferðaþjónustu og óskar honum alls hins besta á nýjum vettvangi.
Nú verður ekki eingöngu breyting hvað varðar ráðherra málaflokksins því samkvæmt fréttum um verkaskiptingu í nýrri ríkisstjórn er ferðaþjónustan ekki aðeins að fá nýjan ráðherra heldur færast málefni ferðaþjónustu og þá Ferðamálastofa í annað ráðuneyti. Ferðamál hafa verið vistuð í ráðuneyti samgöngumála í 43 ár frá því fyrst voru sett lög um stjórnsýslu hennar árið 1964. Það mun skýrast á næstunni með hvaða hætti og hvenær þessi breyting verður á högum okkar.
Á myndinni er Sturla með Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra.