Styrkir veittir úr Þróunarsjóði
Oddný G. Harðardóttir iðnaðarráðherra veitti í dag styrki að samtals upphæð 38,9 milljónir króna úr Þróunarsjóði Landsbankans og iðnaðarráðuneytisins. Afhendingin fór fram í Listasafni Íslands.
Um er að ræða fyrri úthlutunina úr sjóðnum en alls bárust 113 umsóknir um styrki og ákveðið var að veita samtals 20 styrki að þessu sinni.
Þróunarsjóðurinn var stofnaður í tengslum við verkefnið Ísland allt árið. Markmið sjóðsins er að lengja ferðamannatímabilið á Íslandi, með því að styrkja þróun afurða og upplifana utan háannatíma ferðaþjónustu og auka þannig arðsemi fyrirtækja í geiranum. Samtals lögðu stofnendur 70 milljónir í þróunarsjóðinn, 40 milljónir frá Landsbanka og 30 frá iðnaðarráðuneyti sem úthlutað skildi í tveimur úthlutunum.
Úthlutunarnefnd var skipuð Finni Sveinssyni, Davíð Björnssyni og Guðný Erlu Guðnadóttur frá Landsbankanum, Ásborgu Arnþórsdóttur sem skipuð var af iðnaðarráðherra, Berglindi Hallgrímsdóttur frá Nýsköpunarmiðstöð, Ólöfu Ýrr Atladóttur frá Ferðamálastofu og Einari Karli Haraldssyni frá verkefninu "Ísland allt árið". Formaður dómnefndar var Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Landsbankanum.
Finnur Sveinsson, formaður dómnefndar, segir um úthlutunina:
"Það er ljóst að mikil gróska er í ferðaþjónustunni og reyndist það erfitt verkefni fyrir dómnefnd að hafna mörgum afbragðsgóðum verkefnum. Það er klárlega hugur í fólki í ferðaþjónustunni að lengja ferðamannatímabilið og efla ferðaþjónustuna sem atvinnugrein".
Hæsti styrkur - 5 milljónir krónur
Air 66N til að vinna að samstarfi um þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu með það að markmiðið að skapa eftirspurn eftir reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll allt árið. Fjölga á þann hátt ferðamönnum á Norðurlandi og lengja dvöl þeirra.
3.5 milljónir króna styrkur
Pink Iceland - Winter Wedding Wonderland til að kynna Ísland sem vænlegan kost fyrir brúðkaup og brúðkaupsferðir fyrir hinsegin ferðamenn allt árið.
3 milljónir króna styrkir
- Ríki Vatnajökuls - Veturinn í Ríki Vatnajökuls til að þróa samstarf ferðaþjónustufyrirtækja á Suðausturlandi um þróun og markaðssetningu á þrenns konar ferðum: 1) Jöklar í Ríki Vatnajökuls, 2) Matarferðir í Ríki Vatnajökuls, 3) Ljósmyndun í Ríki Vatnajökuls.
-
Ögur ehf. - Gullkistan Ísafjarðardjúp til að koma á samstarfi fjögurra ferðaþjónustufyrirtækja við Ísafjarðardjúp með það að markmiði að fjölga ferðamönnum utan hefðbundins ferðamannatíma. Megináherslurnar eru matur, upplifun, ferðir, náttúruskoðun, fjaran, norðurljós, kyrrð og myrkur.
2 milljónir króna styrkir
- Alkemia - Andleg heilsunámskeið í Mývatnssveit til að skipuleggja andleg heilsunámskeið í Mývatnssveit fyrir erlenda kennara sem koma með nemendum sínum til landsins. Umgjörðin er íslensk náttúra og kyrrð, jarðböð, heilsufæði og hlýjar móttökur fólksins í landinu.
- Tanni ferðaþjónusta - A Road Less Travelled -Meet the locals til að skipuleggja og kynna vetrarferðir þar sem lögð er áhersla á að ferðamaðurinn upplifi íslenska menningu í hnotskurn með þátttöku í samfélaginu. Ferðamaðurinn kveður ekki sem gestur heldur sem hluti af samfélaginu.
-
Ytra Lón ehf. - Langanes í sókn til að gera átak í að þróa og kynna þjónustu og leiðsögn á Langanesi með það að markmiði að ná til einstaklinga og hópa utan hefðbundins ferðamannatíma.
1,9 milljón króna styrkur
-
Fossavatnsgangan Ísafirði til að útbúa ferðir og ferðakosti fyrir gesti á Fossavatnsgönguna sérstaklega erlendis frá. Framleitt verður kynningar um mótið og vetrar- og ferðamennsku á Vestfjörðum.
1,5 milljón króna styrkir
- Efla hf. - Ísgöng í Langjökli til að vinna að gerð ísganga í Langjökli fyrir ferðamenn með það markmiði að bjóða ferðamönnum upp á einstaka og örugga upplifun þar sem ferðamenn kynnast einum stærsta jökli heims með hætti sem ekki hefur verið í boði áður.
- Ferðaklasi á Austurlandi - vöruþróun, vetrarupplifun á Austurlandi til að vinna að því að fjölga vetrarferðamönnum á Austurland og lengja heimsóknir þeirra. Sérstaða Austurlands verður dregin fram og lögð áhersla á óspillta náttúru, norðurljós, krásir og menningu.
- Ferðaþjónustan Álfheimar - vellíðan í Álfheimum til að skipuleggja og kynna ferðir, Vellíðun í Álfheimum. Um er að ræða þar sem gestir dvelja á Borgarfirði eystra og upplifa endurnýjun líkama og sálar í gegnum náttúru og þjónustu fagaðila.
- Friðheimar til skipuleggja ferðir sem byggja á upplifun á fræðandi og seðjandi hátt, þar sem frætt verður um uppskeru tómata á Íslandi allan daga ársins.
- Jarðvangurinn Katla Geopark - Katla Geopark, dynamic destination til að byggja upp vetrarferðaþjónustu innan Jarðvangsins Kötlu Geopark með það að markmiði að lengja ferðamannatímabilið, auka framlegð ferðaþjónustufyrirtækja og framboð á þjónustu.
- Sæferðir ehf. - regnbogar náttúrulífsins við Breiðafjörð til að vinn að átaki í lengingu ferðaþjónustutímans í Stykkishólmi með það að markmiði að hann verði valinn einn af gæðaáfangastöðum Evrópu árið 2011. Upplifanir á litbrigðum og töfrum árstíðanna verða kynntar í náttúru og mannlífi.
- Selasetur Íslands - Húnaþing frá hjartanu - einstök upplifun vor og haust til að vinna að því að ferðaþjónustuaðilar í Húnaþingi vestra sameinast um að skapa upplifanir fyrir ferðamenn utan háannatíma. Unnið verði m.a. með náttúru , hestamennsku, réttarstemmingu, veiðar og mat
1,2 milljón króna styrkur
- Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf. - Sögulandið Vesturland - allt árið til að skipuleggja og þróa 4-5 daga ferðir um Vesturland með áherslu á sögu og menningararf svæðisins, einkum íslenskar miðaldabókmenntir og Íslendingasögur
1 milljón króna styrkir
- Akureyrarstofa fyrir hönd samstarfsfyrirtækja, Eljagangur - Blizzard / Wintersports festival in Akureyri Iceland til að skipuleggja og halda árlega vetrarhátíð með áherslu á að kynna Norðurland erlendis sem miðstöð vetrarútivistar á Íslandi, skapa áhuga á Norðurlandi sem vetraráfangastað og styðja þannig við beint flug til Akureyrar
- Fuglastígur á Norðausturlandi. Fuglastígur á Norðausturlandi er samstarfsvettvangur fyrirtækja og einstaklinga á Norðausturlandi um uppbyggingu fuglaskoðunar á svæðinu og ferðaþjónustu henni tengdri
- Gistihúsið Skeið - viðburðaátak fyrir utan háannatíma ferðaþjónustunnar til að skipuleggja og halda 13 km náttúruhlaup, sögu og fræðslukynningar, prjónaferðir, bókmenntaferðir og kynningar á Tröllaskaga
- Malarhorn ehf. veisla í farangrinum og vetrarveiðar á ref til að skipuleggja og bjóða upp á vetrarveiðar á ref yfir æti og að fylgja eftir sporum refa í nýföllnum snjó
Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson - arctic-images.com