Styttist í kynningu fyrstu tilboða í tónlistar- og ráðstefnuhús
Undirbúningur vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhúss er á góðu skriði. Innan tíðar munu þeir þrír aðilar sem keppa um að fá verkið skila inn fyrsta tilboði sínu og farið verður yfir hugmyndir þeirra um verkefnið, tillögur og tilboð.
Í janúar sl. lögðu þátttakendurnir, Fasteign, Portus og Viðhöfn, fram frumhugmyndir sínar og fengu umsagnir um þær í byrjun febrúar. En nú verða lögð fram fyrstu tilboð með kostnaðar- og rekstraráætlunum. Móttöku tilboða var frestað um viku til 9. maí, en kynning bjóðenda fyrir stjórn Austurhafnar og matsnefnd ásamt undirnefndum verður 11. og 12. maí. Aðferðafræðin kallast samningskaup og verða tillögur ekki sýndar opinberlega á meðan á umfjöllun um þær stendur í maí, að því er fram kemur á vef Austurhafnar. Stjórn Austurhafnar hefur sér til fulltingis samráðshóp til að vera stjórninni til ráðgjafar um gerð hússins. Í hópnum á m.a. sæti Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs.
Gert er ráð fyrir að tillögur um næstu skref komi fram í byrjun júnímánaðar. Áætlað er að tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð verði tilbúin til notkunar í árslok 2008 og verði tekin í notkun á fyrsta ársfjórðungi 2009.