Styttist í lok umsóknarfrests hjá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða
Svartifoss í Skaftafelli en þar hefur mikið verið framkvæmt undanfarin ár fyrir fjármagn úr sjóðnum. Mynd: Guðrún Dóra
Næstkomandi þriðjudag, 25. október, rennur út umsóknarfrestur fyrir styrki í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, vegna framkvæmda á árinu 2017. Grettistaki hefur verið lyft víða um land á undanförnum árum fyrir tilstilli fjármagns úr sjóðnum.
Rýmri kröfur um mótframlag
Við síðustu úthlutun voru kröfur um mótframlag rýmkaðar þannig að nú er auðveldara að sækja fjármagn í sjóðinn. Í stað kröfu um helmings mótsframlag umsækjenda miðast mótframlag nú að jafnaði við 20% af kostnaði þegar styrkhafi er sveitarfélag eða einkaaðili. Styrkir til svæða í eigu eða umsjón ríkisins eru veittir án kröfu um mótframlag.
Tæpir 3 milljarðar frá upphafi
Árið 2016 er fimmta heila starfsár sjóðsins. Frá fyrstu úthlutun úr sjóðnum í febrúar 2012 hafa rúmlega 500 verkefni verið styrkt að upphæð tæplega 2,9 milljarðar króna á verðlagi hvers árs. Við þá upphæð bætist svo framlag styrkþega sjálfra. Ljóst er að fjölmörg spennandi verkefni víða um land hafa orðið að veruleika fyrir tilstuðlan fjármagns úr sjóðnum, þótt ljóst sé að enn sé víða þörf á úrbótum dylst engum sá árangur sem þegar hefur náðst. Tekjur sjóðsins eru 3/5 hlutar gistináttgjalds en auk þess hafa stjórnvöld undanfarin ár verið með sérstakar úthlutanir sem sjóðurinn hefur haft umsjón með.
Betra að vera tímanlega
Væntanlegum umsækjendum er bent á að gott getur reynst að vera tímanlega á ferðinni með umsóknir sínar þar sem mikið álag skapast jafnan er líður að lokum umsóknarfrests. Á upplýsingasíðu um umsóknir á vef Ferðamálastofu er vandlega farið yfir umsóknaferlið og þær kröfur sem gerðar eru til verkefna. www.ferdamalastofa.is/umsoknir
Úthlutanir á gagnvirku korti
Hægt er að kynna sér öll verkefni sem fengið hafa úthlutun á gagnvirku korti á vef Ferðamálastofu, Slóðin er: http://ferdamalastofa.gistemp.com/vefsjar/framkvsj/