Ferðaþjónusta í tölum, sumar 2021 - samantekt
Í dag kom út Ferðaþjónusta í tölum – sumar 2021. Þar eru teknar saman lykiltölur um fjölda ferðamanna til landsins, skráðar gistinætur, nýtingu á hótelum og nokkrar niðurstöður er varða dvöl ferðamanna á Íslandi, s.s. um tilgang ferðar, dvalarlengd og heimsóknir eftir landshlutum.
Útgáfan er í boði bæði á íslensku og á ensku.
Um 304 þúsund erlendir ferðamenn í sumar
Um 304 þúsund erlendir ferðamenn* komu til landsins um Keflavíkurflugvöll síðastliðið sumar, tæplega þrefalt fleiri en í fyrrasumar (2020). Leita þarf níu ár aftur í tímann eða til ársins 2012 til að finna hliðstæðan fjölda ferðamanna að sumri til. Fjöldinn mældist mestur á árunum 2017 til 2019 eða á bilinu 680 til 800 þúsund.
Bandaríkjamenn voru langfjölmennastir ferðamanna í sumar, 130 þúsund talsins eða um 40% af heildarfjölda sem er gjörbreyting frá því í fyrrasumar þegar eitt þúsund Bandaríkjamenn heimsóttu landið. Á árunum 2017 til 2019 heimsóttu árlega um og yfir 200 þúsund Bandaríkjamenn landið yfir sumarmánuðina. Þjóðverjar voru í öðru sæti í sumar, tæplega 27 þúsund talsins eða um 5 þúsund fleiri en í fyrrasumar og ríflega 30 þúsund færri en sumarið 2019. Í þriðja til fimmta sæti voru Pólverjar, Frakkar og Bretar. Ísraelar náðu óvænt inn á lista yfir tíu fjölmennustu þjóðernin í sumar en stórir ferðahópar komu til landsins í beinu flugi frá Ísrael.
Langflestir eða um níu af hverjum tíu ferðamönnum voru í fríi á Íslandi í sumar. Um 4% voru í heimsókn hjá vinum og ættingjum og um 2% í viðskiptatengdum tilgangi. Um 6% voru í annars konar tilgangi.
Meðalfjöldi gistinótta um níu nætur
Breytt ferðamynstur vegna Covid-19 faraldursins hefur annað árið í röð skilað sér í langri dvalarlengd erlendra ferðamanna hérlendis en þeir dvöldu að jafnaði um 9,1 nótt síðastliðið sumar. Um er að ræða ívið styttri dvalarlengd en í fyrrasumar (11,3 nætur), en mun lengri þegar horft er til sumarsins 2019 (7,8 nætur).
Bandaríkjamenn sem vega þyngst vegna hárrar hlutdeildar dvöldu að jafnaði 8,1 nótt eða 2,2 fleiri nætur en þeir gerðu sumarið 2019.
Af tíu fjölmennustu þjóðernunum voru Ísraelar, Þjóðverjar og Spánverjar með lengstu dvalarlengdina eða um og yfir ellefu nætur.
Tvær af hverjum fimm gistinóttum í skráðri gistingu
Nærri tveimur af hverjum fimm gistinóttum í skráðri gistingu samkvæmt gistináttagrunni Hagstofunnar var eytt á hótelum, um 17% á gistiheimilum og tæplega helming í annars konar gistingu. Samtals mældust skráðar gistinætur síðastliðið sumar tæplega 2,7 milljón talsins eða um 58% fleiri en í fyrrasumar (2020) og um fjórðungi færri en sumarið 2019 þegar þær mældust 3,5 milljón talsins.
Um 55% gistinótta í skráðri gistingu eða tæplega 1,5 milljón talsins voru tilkomnar vegna erlendra ferðamanna. Um 44% gistinótta erlendra ferðamanna var varið í ágúst, 39% í júlí og 18% í júní.
Gistinætur Íslendinga
Gistinætur Íslendinga mældust um 1,2 milljón talsins síðastliðið sumar og er þetta annað sumarið í röð þar sem gistinætur þeirra fara yfir eina milljón. Fjöldi gistinótta landsmanna síðastliðin tvö sumur endurspegla hversu duglegir þeir hafa verið að ferðast innanlands á tímum kórónuveirufaraldursins en sumrin 2017 til 2019 voru Íslendingar að eyða rétt innan við 600 þúsund gistinóttum innanlands. Um 44% gistinótta var eytt í júlí, 38% í ágúst og 19% í júní.
Munur á hótelnýtingu eftir landshlutum
Gistinætur á hótelum voru um ein milljón talsins sumarið 2021 eða um 38% af skráðum gistinóttum. Sjö af hverjum tíu voru tilkomnar vegna erlendra ferðamanna og voru gistinætur þeirra meira en þrefalt fleiri en í fyrrasumar (2020). Þegar gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum síðastliðið sumar eru hins vegar bornar saman við 2019 má sjá að þær voru um helmingi fleiri 2019 eða um 1,3 milljón talsins.
Mest var framboð herbergja á landsvísu í ágúst á nýliðnu sumri, tæplega 10.200 herbergi, eða 91% af framboðnum herbergjum sumarið 2019. Í júlí var framboðið um 9.700 herbergi eða 88% af herbergjum í boði sumarið 2019 og í júní 8.900 herbergi eða 81% af þeim herbergjafjölda sem í boði var sumarið 2019.
Þegar horft er til nýtingar á hótelherbergjum yfir sumarmánuðina 2021 má sjá verulegan mun eftir mánuðum og eftir landshlutum. Hæst var nýtingin á landsvísu í ágústmánuði eða 76%, en nýtingin mældist hæst á Austurlandi (83%), Norðurlandi (79%) og á höfuðborgarsvæðinu (78%). Lægst var nýtingin í júní eða um 40% á landsvísu og fór hún niður fyrir 35% í tveimur landshlutum, á Suðurlandi (34%) og Austurlandi (28%).
Samantektin er unnin af Oddnýju Þóru Óladóttur hjá rannsókna- og tölfræðisviði Ferðamálastofu og er liður í aukinni áherslu Ferðamálastofu á rannsóknir, söfnun og miðlun talnaupplýsinga. Allar ábendingar um efni og efnistök eru vel þegnar og sendast á oddny@ferdamalastofa.is
*Fjöldatölur taka mið af brottfarartalningum Ferðamálastofu og Isavia á Keflavíkurflugvelli og ber að skoða tölurnar með þeim fyrirvörum sem aðferðafræðin felur í sér.