Svæði helgað Íslandi í Europa-Park
Skrifstofa Ferðamálastofu í Þýskalandi er í samstarfi við Europapark, stærsta skemmtigarð Þýskalands, um kynningu á Íslandi á nýju Íslands-þema svæði sem opnað var í garðinum í gær.
Garðurinn er í smábænum Rust í syðst í Þýskalandi nálægt landamærunum við Frakkland og Sviss. Íslandssvæðið er hið 13. í garðinum, sem telur alls 85 hektara og hann sækja fjórar milljónir gesta ár hvert. Aðalhlutar svæðisins eru glænýr rússíbani í íslensku landslagi, "Blue-Fire", og íslensk gata í stíl húsagerðar í byrjun síðustu aldar. Þar má meðal annars finna verslanir og kaffihús, þar sem ætlunin er að sýnishorn af íslenskri framleiðslu verði einnig í boði.
Skemmtilegt tækifæri fyrir landkynningu
Sem fyrr segir er skrifstofa Ferðamálastofu í Þýskalandi í samstarf við Europapark um kynningu á Íslandi fyrir gesti á svæðinu. Þar munu að staðaldri liggja frammi upplýsingar um Ísland auk þess sem möguleikar eru á ýmis konar uppákomum. Íslensk þemahelgi verður t.d. haldin í garðinum fyrstu helgina í júní. ?Þeir hjá Europapark eru ákaflega jákvæðir í okkar garð og þarna fáum við skemmtilegt tækifæri á að kynna landið, einkum fyrir fjölskyldufólki,? segir Davíð Jóhannsson, forstöðumaður Ferðamálastofu í Þýskalandi.
Viðstaddir opnunina voru fjölmiðlafólk og boðsgestir, alls um 350 manns. Ólafur Davíðsson sendiherra ávarpaði gesti, auk þess sem Guðrún Ingimarsdóttir söng nokkur íslensk lög. Einnig tók Unnur Birna Vilhjálmsdóttir alheimsfegurðardrottning þátt í opnuninni.
Frá vinstri: Davíð Jóhannsson, Guðrún Ingimarsdóttir, Unnnur Birna Vilhjálmsdóttir og Ólafur Davíðsson sendiherra.
Mynd 3: Ólafur Davíðsson sendiherra ávarpar fjölmiðlafólk og gesti.
Ólafur Davíðsson sendiherra og Unnur Birna Vilhjálmsdóttir ásamt eigendum Europapark, bræðrunum Mack og eiginkonum þeirra.
Unnur Birna ásamt Roland Mack í vísglsuferð ?Blue Fire?.
Frá íslenska svæðinu.