Þjónustuhús fyrir skemmtiferðaskip
Á nýja hafnarbakkanum í Sundahöfn í Reykjavík, Skarfabakka, er verið að byggja þjónustumiðstöð, sem er aðstaða fyrir farþega og þá sem koma að móttöku skemmtiferðaskipa. Húsið verður 360 fermetrar að stærð og verður byggingu þess lokið í byrjun júlí á þessu ári. Teikningu af húsinu má sjá á meðfylgjandi mynd.
Í frétt á vef Faxaflóahafna kemur fram að í húsinu er gert ráð fyrir lítilli veitingaaðstöðu, aðstöðu fyrir upplýsingabæklinga og fulltrúa frá ferðamálayfirvöldum og almennu rými fyrir gesti. Í almenna rýminu verður hægt sé að tengjast fjarskiptaneti og símar og fax verða sett upp.
Utan við húsið eru stæði fyrir langferðabíla,leigubíla og strætó. Með tilkomu þessa húss verður aðstaða fyrir skemmtiferðaskip öll hin glæsilegasta á Skarfabakka en reiknað er með að um það bil 50 skip komi að bakkanum í sumar.