Þjórsárstofa opnuð
Þjórsárstofa, hefur verið opnuð í félagsheimilinu Árnesi. Ráðherra ferðamála, Katrín Júlíusdóttir opnaði gestastofuna formlega.
Þjórsárstofa, er samstarfsverkefni sveitarfélagsins Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjunar. Markmiðið er að miðla fróðleik og upplýsingum um náttúruna, fólkið og söguna á Þjórsársvæðinu, með Þjórsá sjálfa sem meginþema.
Sýningarhönnun annaðist Björn G. Björnsson, texta skrifaði Ari Trausti Guðmundsson
og Gagarín sá um Margmiðlunina. Það er fyrsti hluti Þjórsárstofu sem opnaður er í ár ásamt nýrri veitingastofu, en á næsta ári verður síðari hluti gestastofunnar fullbúinn.
Af þessu tilefni hefur Ari Trausti Guðmundsson í samvinnu við ýmsa aðila gert nýja fræðslumynd um Þjórsárdalinn, sem er í senn einstök náttúruperla og merkur sögustaður. Myndin verður sýnd í sjónvarpinu á næstunni og síðar seld ferðamönnum.
Vaxandi fjöldi ferðamanna leggur leið sína í Þjórsárdal ár hvert, enda eru þar fjölbreyttir útivistarmöguleikar í einstakri náttúru og sögustaðir s.s. Stöng og Þjóðveldisbærinn.
Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að uppbyggingu í dalnum í samvinnu við Fornleifavernd ríkisins, Skógræktina og Ferðamálastofu. Stígar hafa verið lagðir og sögustaðir merktir auk þess sem áhugahópur heimamanna hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum sem miða að því að gera sögu dalsins sýnilega. Meðal verkefna eru Landnámsdagur sem haldinn er annað hvert ár og Gaukssaga leikverk um Gauk í Stöng sem sýnt var nýlega.
Allt stuðlar þetta að því að fjölga áhugaverðum áningarstöðum ferðamanna, fá þá til að fara víðar og dvelja lengur.
ásamt
Heimasíða: www.thjorsarstofa.is