Fara í efni

Þriggja tíma tónlistarveisla í beinni útsendingu um allan heim

Seljalandsfoss
Seljalandsfoss

Fimmtudagskvöldið 1. júlí fer einn af hápunktum Inspired by Iceland átaksins fram með tónleikunum ''Iceland Inspires'' að Hamragörðum undir Eyjafjöllum.

''Iceland Inspires'' tónleikarnir eru þriggja tíma tónlistarveisla sem verður einnig í beinni útsendingu á vefsíðu átaksins www.inspiredbyiceland.com.  Inspired by Iceland átakið hefur vakið mikla eftirtekt um allan heim og heimsóknir á vefsíðuna eru nokkur þúsund hvern dag. Því er ætlunin að nýta þann meðbyr og vekja enn meiri athygli á Íslandi og því sem að landið hefur upp á að bjóða.

''Iceland Inspires'' tónleikarnir fara fram að Hamragörðum undir Eyjafjöllum sem eru rétt innan við Seljalandsfoss í Rangárvallarsýslu.  Náttúrufegurðin ein ræður ríkjum að Hamragörðum og mun skapa einstaka umgjörð í kringum okkar forvitnilegasta tónlistarfólk ásamt nokkrum vel völdum erlendum gestum.

Að Hamragörðum koma m.a. fram Spiritualized með íslenskri strengjasveit og kór, Seabear, Amiina, Dikta, Steindór Andersen, Lay Low, Hilmar Örn Hilmarsson, Mammút, Páll á Húsafelli og Parabólur ásamt fleirum.  Mynd - og hljóðupptökur með Damien Rice, Glen Hansard, Gus Gus, Hjaltalín, For a Minor Reflection og Retro Stefson verða einnig í beinu útsendingunni á netinu.  Upptökurnar eru gerðar sérstaklega fyrir útsendinguna á nokkrum vel völdum stöðum í íslenskri náttúru.

''Iceland Inspires'' tónleikarnir eru öllum opnir án endurgjalds. Ungir sem aldnir, fjölskyldur og fleiri eru hvattir til að mæta og upplifa einstaka tónleika í einstakri náttúru.

Svæðið opnar kl. 19:00 fimmtudaginn 1. júlí og hefjast tónleikarnir stundvíslega kl. 20:00 og lýkur kl. 23:00.

Nánari upplýsingar um Inspired by Iceland veitir Einar Karl Haraldsson, s. 840 6888.