Fara í efni

Tilkynnt um val á EDEN-gæðaáfangastað

EDEN lógó
EDEN lógó

Við opnun ferðasýninarinnar Íslandsperlur næstkomandi föstudag, 20. maí kl. 16, verður tilkynnt hvaða áfangastaður á Íslandi hlýtur útnefningu sem gæðaáfangastaður í Evrópu 2011, eða svokallaður EDEN-áfangastaður.

Ferðamálastofa er fyrir Íslands hönd aðili að Evrópska EDEN-verkefninu, sem stendur fyrir „European Destination of Excellence“. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum Evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni.

Árleg samkeppni
Árlega er haldin samkeppni um gæða áfangastaði í Evrópu og er nýtt þema á hverju ári. Með því að hafa þau breytileg er leitast við að gefa sem flestum gerðum af stöðum og ferðaþjónustu kost á þátttöku. Þema þessa árs er „Ferðaþjónusta og endurnýjun svæða“ (Tourism and Regeneration of Physical Sites). Athyglinni er beint að svæðum sem gengið hafa í endurnýjun lífdaga og fengið nýtt hlutverk sem ferðamannastaðir, eftir að hafa áður gegnt einhverju öðru og alls óskyldu hlutverki.

Nokkrar áhugaverðar tillögur bárust dómnefnd og á föstudaginn er sem sagt komið að því að upplýsa hver hlýtur útnefningu að þessu sinni. Verðlaunaafhendingin og sýning með kynningu á öllum verðlaunaáfangastöðunum fer fram í Brussel í haust. Allir EDEN verðlaunahafar fá töluverða umfjöllun og kynningu í fjölmiðlum í Evrópu í tengslum við verðlaunaafhendinguna og á vefsíðum og kynningarritum EDEN verkefnisins eftir það. EDEN verðlaunin eru bæði viðurkenning á gæðum viðkomandi áfangastaðar og hafa mikla þýðingu fyrir markaðssetningu.

Vestfirðir fyrsti EDEN-áfangastaður Íslands
Ísland tók í fyrsta sinn þátt í EDEN-verkefninu á árinu 2010, þegar samkeppnin var haldin í 4. sinn. Þema ársins 2010 var Sjálfbær ferðaþjónusta tengd vatni (Sustainable Aquatic Tourism). Dómnefnd valdi þá Vestfirði og Vatnavini Vestfjarða EDEN sem fulltrúa fyrir hönd Íslands.

Vefsíður með nánari upplýsingum: