Tölur yfir gistinætur og gestakomur á hótelum í september
Hagstofan hefur nú birt bráðabirgðatölur yfir gistinætur og gestakomur á hótelum í september. Þar sem skil á gistiskýrslum voru ekki nægjanleg fyrir Austurland er ekki mögulegt að birta tölur fyrir þann landshluta að svo stöddu. Þar af leiðandi er ekki hægt að birta heildartölur fyrir landið en tölur annara landsvæða eru þó birtar eins og vanalega.
Gistinætur á höfuðborgarsvæðinu nánast jafnmargar og í fyrra
Gistinætur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu í septembermánuði voru nánast jafnmargar og árið 2001. Í september síðastliðnum töldust gistinætur vera 46.152 en árið 2001 voru þær 46.550. Athygli vekur þó að fjöldi íslenskra hótelgesta á höfuðborgarsvæðinu eykst um 47% milli ára meðan útlendingum fækkar um rúm 4% á sama tíma. Hótelum á svæðinu hefur fjölgað um eitt milli ára og rúmum um 349.
Gistinóttum fækkar á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum
Í september fækkaði gistinóttum um tæp 11% í þessum landshlutum til samans. Þar voru gistinætur 5.484 í september síðastliðnum en árið á undan voru þær 6.129. Þess má þó geta að gististöðum í þessum landshluta fækkaði um einn og rúmum um 42.
Á Norðurlandi fjölgar gistinóttum
Gistinóttum á Norðurlandi vestra og eystra fjölgaði um tæp 34% milli ára. Þá voru gistinæturnar 5.467 árið 2001 en töldust 7.321 í september síðastliðnum. Þá fjölgaði útlendingum um rúm 80% en íslendingum fækkaði að sama skapi um rúm 40%. Hótelum á Norðurlandi hefur fjölgað um eitt og hefur rúmum fjölgað um 105 á tímabilinu.
Gistinóttum á Suðurlandi fjölgar
Eins og flesta aðra mánuði ársins fjölgar gistinóttum á Suðurlandi. Þær voru 4.780 í ágúst 2001 en töldust 7.435 í september sl, en það er aukning um rúm 55%. Fjölgunin á bæði við um íslenska og erlenda hótelgesti en gistinætur vegna útlendinga hafa nánast tvöfaldast milli ára. Geta má að á Suðurlandi fjölgar gististöðum um 4 á milli ára og rúmum um 303.
Sjá nánar á vef Hagstofunnar.