Tvær nýjar námsskrár í ferðaþjónustu
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fékk tvo styrki í september 2013 frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að útfæra nýjar tillögur um nám fyrir almenna starfsmenn í ferðaþjónustu með áherslu á þá sem starfa á veitinga- og gistihúsum.
Styrkirnir voru veittir til að rita námsskrár annars vegar fyrir framhaldsfræðsluna ( fullorðið fólk án formlegrar menntunar) og hins vegar fyrir framhaldsskóla. Samtök ferðaþjónustunnar og Starfsgreinasambandið voru samstarfsaðilar í báðum verkefnum og einnig fræðsluaðilar úr framhaldsskólum (FB og MK) og framhaldsfræðslu.
Undanfari verkefnanna var ítarleg greining á þessum störfum og þeirri hæfni sem þarf til að sinna þeim og einnig var byggt á
nýlegri rannsókn á vegum SAF sem framkvæmd var af Maskínu ehf. til að skoða samsetningu hópsins.
Þessi verkefni eru liður í tilraunaverkefni SAF, SGS, Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og fleir aðilar um nýskipan náms í
framhaldsfræðslu þar sem stefnt er að auknum sveigjanleika, tengingu við íslenskan viðmiðaramma um ævinám og skýrum tengingum við
annað námsframboð m.a. í framhaldsskólum. Jafnframt er leitast við að byggja á því námsframboði og reynslu sem er til staðar
innan framhaldsfræðslunnar.
Helstu afurðir verkefnanna eru nýjar námsskrár. Námsskrá fyrir framhaldsfræðslu er byggð upp á nýstárlegan hátt og
er ætlað að mæta kröfum nýrra laga. Fræðsluaðilar innan framhaldsfræðslu hafa hug á að tilraunakenna eftir þeirri
námskrá á komandi hausti og hafa sótt eftir fjárstyrk til mennta- og menningarmálaráðuneytisins til þess. Samkvæmt nýjum
tillögum verður hægt að ljúka námi á 2. þrepi en einnig hægt að stefna á styttra nám sem er þá fyrst og fremst
hagnýt þjálfun til þátttöku í atvinnulífinu. Námsskráin sem rituð var fyrir framhaldsskóla lýsir starfstengdu
ferðaþjónustunámi á 1. og 2. þrepi. Þar er gert ráð fyrir skólanámi og vinnustaðanámi til helminga.
Hjá ofangreindum samstarfsaðilum verður áfram unnið að þróun og útfærslu þessara hugmynda og einnig verða skoðaðir
möguleikar á raunfærnimati gagnvart þessum námsskrám.
Mynd: Frá undirritun samstarfssamnings, f.v. Margrét Friðriksdóttir, skólameistari MK, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir FB, María Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi SAF, og Ingibjörg E. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri FA.