Undirskrift samninga vegna styrkja við ferðaþjónustuverkefni á Vestfjörðum
Í gær skrifaði Ferðamálastofa undir samninga vegna verkefna í uppbyggingu og úrbótum á ferðamannastöðum á Vestfjörðum. Annars vegar við klasafyrirtækið Sjávarþorpið Suðureyri ehf og hins vegar við Ísafjaðarbæ.
Upplýsingamiðlunartorg á Suðureyri
Klasafyrirtækið Sjávarþorpið Suðureyri ehf. fær styrk til uppbyggingar á upplýsingamiðlunartorgi sem staðsett er við innkomuna í bæinn. Þar verður ferðafólk upplýst um staðinn og möguleika þess á þátttöku í daglegu lífi með heimafólki. Ákveðið var að verkefnið fengi 2 millj. til verkefnisins.
Úrbætur á Hornströndum
Ísafjarðarbær, sem hefur umsjón og lögsögu yfir Hornströndum og Jökulfjörðum, fær styrk til úrbóta á aðstöðu fyrir ferðafólk á Hornströndum. Styrkurinn verður nýttur til að bæta hreinlætisaðstöðu og úrbóta í öryggismálum. Til verkefnisins verður úthlutað 2.2 millj.
Í anda sjálfbærrar þróunar
Að mati Ferðamálastofu eru þau verkefni sem hér eru styrkt vel til þess fallin að renna stoðum undir markvissa uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Hugmyndafræði þessara verkefna og uppbygging er í anda sjálfbærrar þróunar að því leyti að þau fræða fólk um náttúru og menningu sem gerir almennan ferðamann meðvitaðan um umhverfi sitt. Þau dreifa álagi um sveitarfélagið og þar með dregur úr álagi bæði á náttúru og mannlíf. Þá má geta þess að annað verkefnið tengir ferðafólk við hið daglega líf í samfélaginu, sem eykur líkurnar á efnahagslegum ábata ferðaþjónustunnar enn frekar.
Tæplega 500 milljónum úthlutað á 11 árum
Árlega úthlutar Ferðamálastofa styrkjum til úrbóta í umhverfismálum og til uppbyggingar á nýjum svæðum. Á árunum 1995 til 2006 hefur Ferðamálastofa samtals varið tæplega 500 milljónum króna til styrkja og framkvæmda á um 400 ferðamannastöðum víðsvegar á landinu. Í ár bárust 158 umsóknir um styrki. Styrkbeiðnir hljóðuðu upp á samtals rúmlega 210 milljónir króna en til ráðstöfunar voru um 40 milljónir.
Til viðmiðunar við úthlutun styrkja er stuðst við reglur um forgangsröðun sem fylgt hefur verið síðustu ár. Mikilvægi verkefna er metið eftir því hver áhrif framkvæmdarinnar eru á náttúru og umhverfi. Verkefni sem stuðla að náttúruvernd eru því forgangsverkefni. Einnig er reynt að fylgja eftir því opinbera markmiði að uppbygging ferðaþjónustunnar skuli taka mið af sjálfbærri þróun í samfélaginu.
Á liðnum áratug hefur orðið gífurleg aukning á komum ferðafólks til landsins og ferðalögum Íslendinga um eigið land. Ísland var lengi vel markaðssett sem land ?Elds og ísa? þannig að ferðafólki var beint á hverasvæði, á jökla eða í óbyggðir. Þessi mikla aukning á ferðafólki var farin að ganga óþarflega mikið á auðlindina ?náttúru Íslands?. Því hafa yfirvöld ferðamála sett sér það markmið að vernda náttúruna og auka efnahagslegan ábata af ferðþjónustu og er eins og áður er sagt reynt að vinna eftir hugmyndafræði um ?sjálfbæra ferðaþjónustu?.
Skrifað undir samninga. Talið frá vinstri: Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálastofu; Þorleifur Pálsson, bæjarritari Ísafjarðarbæjar; Magnús Oddsson ferðamálastjóri; Elías Guðmundsson og Jóhanna Þorvarðardóttir en tvö þau síðasttöldu eru í forsvari fyrir Sjávarþorpið Suðureyri ehf.