Unnið að endurskoðun ferðamálaáætlunar
Eins og áður hefur komið fram ákvað Sturla Böðvarsson samgönguráðherra að flýta endurskoðun á Ferðamálaáætlun 2006-2015. Sú áætlun sem var samþykkt á Alþingi vorið 2005 er fyrsta heildaráætlun um ferðamála sem Alþingi hefur afgreitt.
Ákvörðun um að flýta endurskoðun var tekin í ljósi þess að vinna við verkefni áætlunarinnar hafði gengið betur en gert var ráð fyrir. Mörgum verkefnum er lokið og nýtast niðurstöður ýmissa þeirra við endurskoðunina. Nú síðast var lokið við samanburð á rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar á Íslandi og nágrannalöndunum. Verkinu er stýrt af stýrihóp sem í sitja Magnús Oddsson, sem er formaður, Erna Hauksdóttir og Helga Haraldsdóttir.
Hin daglega vinna við verkið er vistuð hjá Ferðamálastofu og hefur verið ráðinn sérstakur verkefnastjóri í þá vinnu, Sunna Þórðardóttir ferðamálafræðingur. Áætlað er að endurskoðuninni verði lokið í september.